Sjávarafurðir: Útflutningur í samræmi við bráðabirgðatölur

1. september, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var tæpir 19,0 milljarðar króna í júlí, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar og greint var frá á Radarnum fyrr í mánuðinum. Þetta er 19% samdráttur í krónum talið miðað við útflutningsverðmæti sjávarafurða í júlí í fyrra. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, eða rúm 27%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 10% veikara nú í júlí en í sama mánuði í fyrra. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróunina á fyrstu 7 mánuðunum frá árinu 2018 til 2020, en þar hafa tölurnar verið leiðréttar fyrir sveiflum í gengi krónunnar.

Mestu munar um þorskinn
Eins og sjá má geta miklar sveiflur verið á milli mánaða í útflutningi á sjávarafurðum, og kemur til að mynda samdrátturinn í júlí í kjölfar myndarlegrar aukningar í júní á milli ára. Af einstaka tegundum sjávarafurða munar mest um þorskinn í samdrættinum í júlí, en útflutningsverðmæti þorskafurða var 28% minna í júlí en í sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Mánuðinn á undan var hins vegar veruleg aukning í útflutningsverðmætum þorskafurða, eða um 45% á föstu gengi. Samanlagt dróst útflutningsverðmæti annarra botnfisktegunda saman um rúm 26% á milli ára í júlí. Munaði þar mestu um ufsa (-50%), karfa (-31%) og svo ýsu (-25%). Útflutningsverðmæti flatfiskafurða dróst saman um þriðjung, og þar munaði mest um grálúðu (-30%).

Af öðrum tegundahópum í júlí má nefna verulegan samdrátt í útflutningi á skelfiskfurðum á milli ára, eða um 65% á föstu gengi. Þar munar mest um minni útflutning á rækju og humri. Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða í júlí dróst saman um 11% á föstu gengi á milli ára. Þar vegur samdráttur í útflutningi á kolmunna og loðnubirgða upp á móti auknum útflutningi á makríl og síld. Hér ber að halda til haga að útflutningur í tilteknum mánuði þarf ekki að endurspegla að fullu það sem flutt var út í mánuðinum þar sem töf getur verið á skilum á gagnaskilum. Þetta á sér í lagi við um frystar uppsjávarafurðir.

 

Samdráttur í öllum vinnsluflokkum
Þessi framvinda sést einnig á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir útflutningsverðmæti afurða eftir vinnslu. Þar má sjá að verulegur samdráttur er í útflutningsverðmæti landfrystra afurða á milli ára í júlí, eða sem nemur um 43% á föstu gengi. Í júlí er í raun samdráttur í öllum vinnsluflokkum á milli ára; útflutningsverðmæti ferskra afurða dróst saman um 20% á föstu gengi, sjófrystra um rúm 23%, þurrkaðra og saltaðra um 25% og fiskimjöls og lýsis um tæp 14%. Þetta er á skjön við það sem gerðist mánuðina á undan þegar útflutningsverðmæti allra þessara flokka jókst á milli ára, að þurrkuðum og söltuðum afurðum undanskildum.

Um 11% samdráttur það sem af er ári
Á fyrstu sjö mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í 146,1 milljarða króna samanborið við 151,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Í krónum talið er samdrátturinn því rúm 3% en í erlendri mynt um 11%. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróunina á útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir svæðum á fyrstu sjö mánuðum hvers árs frá árinu 2012 til 2020, á föstu gengi. Þar sést að samdráttur hefur orðið á öllum svæðum á milli ára, en þó mismikill. Samdrátturinn hefur verið hlutfallslega mestur á útfluttum afurðum til Asíu (-29% á föstu gengi). Hér gætir einnig áhrifa af loðnubresti, annað árið í röð, enda hefur framboð tegunda einnig áhrif á útflutning til einstakra svæða. Hlutfallslega hefur samdrátturinn verið minnstur til aðildarríkja ESB (-6% á föstu gengi), en gangurinn, frá einu ríki til annars, hefur verið með nokkuð mismunandi hætti. Í verðmætum talið hefur útflutningur til Spánar dregist mest saman en aftur á móti hefur meira verið flutt til Hollands í ár en í fyrra. Hér ber þó að halda til haga að COVID-19 hefur haft veruleg áhrif á flutningsleiðir á milli landa. Það kann að leiða til þess að útflutningur á sjávarafurðum er í meira mæli skráður á annað land en hann að lokum endar í. Það gæti í sumum tilfellum átt við um Holland.