Fara á efnissvæði
Verðmætasköpun á Vestfjörðum springur út

Verðmætasköpun á Vestfjörðum springur út

9. október 2024

Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 80% af starfsfólki í fiskeldi býr á landsbyggðinni og um 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem þar búa. Þetta hlutfall er á svipuðu róli og í sjávarútvegi og það er því aðeins landbúnaður sem stendur greinunum framar í þessum efnum.  

 

Af einstaka landshlutum skera Vestfirðir sig úr, en rekja má um þriðjung alls launafólks og atvinnutekna í fiskeldi til einstaklinga sem þar búa. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, en þær tölur eru birtar niður á landshluta og einstaka sveitarfélög. Það eru afar mikilvægar upplýsingar, enda sýna þær bæði hvernig tekjur einstaka atvinnugreina dreifast um landið og hvaða atvinnugreinar það eru sem standa undir tekjum íbúa á einstaka landsvæðum. Atvinnulíf er undirstaða byggðar í landinu og hversu öflugt það er endurspeglast vel í samfélaginu, eins og til dæmis í íbúaþróun, menningarlífi, fasteignamarkaði og fjárhagstöðu sveitarfélaga. Það er því áhugavert að rýna í þessar tölur Hagstofunnar fyrir Vestfirði.

 

 

Áhrifin greinileg á Vestfjörðum

Að jafnaði fengu um 280 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins á Vestfjörðum. Miðað við sama tímabil árið 2013 hefur fjöldinn fjórfaldast. Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar á Vestfjörðum, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu ríflega 2.500 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er átta sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2013.