Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 2,9 milljörðum króna í nóvember, eða sem nemur tæpum 100 milljónum króna fyrir hvern einasta dag mánaðarins. Það er næstmesta verðmæti í einum mánuði, en hæst fór það í október, tæplega 3,1 milljarð króna. Miðað við sama tíma árið 2018 er um ríflega tvöföldun að ræða, bæði í krónum talið og erlendri mynt. Gengi krónunnar var að jafnaði um 2% sterkara í nóvember en í sama mánuði árið á undan. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.