Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 22,7 milljörðum króna í nóvember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Það er rúmlega 15% aukning í krónum talið miðað við nóvember í fyrra. Sé leiðrétt fyrir áhrifum af gengislækkun krónunnar er útflutningsverðmæti sjávarafurða í nóvember nánast jafn mikið og það var í nóvember í fyrra. Ekki liggur fyrir frekari sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti eða magn á einstökum afurðum þróaðist í nóvember, en tölur þess efnis verða birtar 11. janúar.