Veiðigjald: 13-16 milljarðar á næsta ári?

10. desember, 2024

 Á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa íslenskar útgerðir greitt 8.539 milljónir króna í veiðigjald. Það er 2% lægri fjárhæð en þær höfðu greitt fyrir veiðar á sama tímabili í fyrra en þá var heildarfjárhæðin komin í 8.787 milljónir króna. Enginn loðnukvóti var gefinn út á þessu ári sem hefur óhjákvæmileg áhrif á fjárhæð veiðigjaldsins, enda greiddu útgerðir 1.784 milljónir vegna veiða á loðnu á síðasta ári. Sé veiðigjald af loðnu undanskilið í tölunum teiknast upp allt önnur mynd. Þá er heildarfjárhæð veiðigjaldsins rúmlega 23% hærri á fyrstu tíu mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra.

 

Að vanda hafa þorskveiðar skilað hæstri fjárhæðinni í veiðigjald á fyrstu tíu mánuðum ársins, eða sem nemur 4.748 milljónum króna. Það er rúmlega 45% hærri fjárhæð en veiðar á þorski skiluðu á sama tíma í fyrra. Það má að stærstum hluta rekja til þess að upphæð veiðigjaldsins á hvert kíló af þorski er mun hærri í ár en hún var í fyrra, eða 26,66 krónur á móti 19,17 krónum. Þar að auki var þorskaflinn rúmlega 4% meiri á fyrstu tíu mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra. Veiðar á ýsu hafa svo skilað næsthæstri fjárhæðinni í veiðigjald, eða sem nemur 1.545 milljónum króna. Það má jafnframt hvort tveggja rekja til þess að um fimmtungi meira af afla hefur verið landað af ýsu í ár en í fyrra og krónutala veiðigjaldsins í ár er hærri en í fyrra, eða 22,28 krónur á móti 19,82 krónum. Veiðar á kolmunna verma svo þriðja sætið en þær hafa skilað um 898 milljónum króna í veiðigjald, sem er um þriðjungi hærri fjárhæð en í fyrra. Þar er jafnframt saman sagan; greiða þarf 3,20 krónur fyrir hvert kíló af kolmunna í ár samanborið við 2,49 krónur í fyrra og kolmunnaaflinn er um 3% meiri.

Hlutdeild landsbyggðar um 83%

Áhugavert er að skoða hvernig fjárhæð veiðigjaldsins skiptist eftir landshlutum. Þá kemur í ljós að um 83% af fjárhæð veiðigjaldsins hefur verið greidd af útgerðum á landsbyggðinni. Það kemur eflaust fáum á óvart, enda er sjávarútvegur ein fárra atvinnugreina sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvernig fjárhæð veiðigjaldsins dreifist um landið en hún endurspeglar ágætlega hversu ólíkir landshlutarnir eru þegar kemur að fiskveiðum. Þar má sjá að veiðar á botnfiski eru mun dreifðari um landið en á uppsjávarfiski en stærsti hluti uppsjávargeirans er á Austurlandi og í Vestmannaeyjum.

 

Á myndinni má sjá að heildarfjárhæð veiðigjaldsins í ár er lægri á fyrstu tíu mánuðunum í ár en í fyrra í öllum landshlutum sem reiða sig á uppsjávarveiðar. Þar blasir jafnframt við að þá lækkun megi fyrst og fremst rekja til loðnubrests í ár. Sé veiðigjald af loðnu hins vegar undanskilið, þá hafa útgerðir á öllum þessum svæðum greitt töluvert hærri fjárhæð í veiðigjald í ár en í fyrra. Útgerðir á Suðurnesjum, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra reiða sig nær eingöngu á botnfiskveiðar. Þar hefur heildarfjárhæð veiðigjaldsins hækkað nokkuð myndarlega á milli ára í öllum tilvikum.

 

Betri afkoma, meira í ríkissjóð

Hvað veiðigjald mun skila ríkissjóði í ár fer eftir lönduðum afla á síðustu tveimur mánuðum ársins. Reikna má þó með að fjárhæð veiðigjaldsins í ár endi í rúmum tíu milljörðum króna og verði þar með á svipuðu róli og í fyrra. Á næsta ári má hins vegar reikna með að fjárhæð veiðigjaldsins verði töluvert hærri og í raun má reikna með að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði þær mestu frá upphafi. Það má lesa úr auglýsingu sem matvælaráðuneytið birti í Stjórnartíðindum í síðustu viku um veiðigjald fyrir árið 2025. Gjaldið er auglýst sem krónur á kíló landaðs óslægðs afla en sú upphæð er nákvæmlega 33% af afkomu fiskveiða á árinu 2023. Ljóst er að upphæð veiðigjaldsins hækkar nokkuð myndarlega á milli ára á langflestum fisktegundum og er hækkunin sérlega mikil á uppsjávartegundum líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan.

Til þess að setja þessar upphæðir sem útgerðir þurfa að greiða á næsta ári í samhengi er ágætt að bera það saman við árið 2023. Þá er heilt ár undir, auk þess sem loðnukvóti var gefinn út það ár. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hver fjárhæð veiðigjaldsins var eftir tegundum á árinu 2023 og hver fjárhæð þess yrði á árinu 2025 ef aflinn á því ári yrði nákvæmlega hinn sami fyrir hverja einustu fisktegund og á árinu 2023. Það er vissulega óraunhæft að reikna með því, enda eru miklar sveiflur í afla einstaka fisktegunda frá einu ári til annars af fjölmörgum ástæðum. En ef sú yrði raunin myndu útgerðir greiða um 15,6 milljarða króna í veiðigjald á árinu 2025, eða ríflega helmingi meira en þær greiddu á árinu 2023. Sé veiðigjald af loðnu undanskilið, yrði fjárhæðin 13,3 milljarðar árinu. En hver fjárhæðin verður á næsta ári ríkir eðlilega mikil óvissa um og þá ekki síst varðandi útgáfu loðnukvóta á yfirstandi fiskveiðiári.

 

Deila frétt á facebook