Þorskur, áhersla á aukin verðmæti

30. janúar, 2023

Það má heita ótrúlegt, að þrátt fyrir aflasamdrátt upp á heil 28 þúsund tonn, bendir allt til þess að útflutningsverðmæti þorskafurða hafi aukist í fyrra. Þó að þorskaflinn hafi ekki verið minni frá árinu 2014 stefnir í að árið 2022 verði eitt besta ár sögunnar þegar litið er til verðmætasköpunar þorskveiða.

Staðan í heimshagkerfinu, og þar með ástand á mörkuðum víða um heim, gegnir veigamiklu hlutverki í þeim efnum. Það þarf þó meira til þegar hámarka á verðmæti úr takmörkuðum afla. En ef svo fer fram sem horfir er ljóst að hærra afurðaverð gegndi stóru hlutverki og vóg upp aflasamdrátt og gott betur.

Til þess að skoða það nánar verður í dag og á næstu dögum stiklað á stóru um ýmis mál er varða vinnslu og útflutning á þorski. Við hefjum yfirferðina á helstu breytingum sem hafa átt sér stað frá árinu 2009. Hagstofan birtir í fyrramálið tölur um útflutning í desember. Þá kemur í ljós hversu miklu verðmæti þorskurinn skilaði í fyrra. Því verður fylgt eftir með samantekt á því helsta sem stóð upp úr á árinu 2022. Að lokum berum við stöðuna á Íslandi saman við stöðuna í Noregi, sem er ein helsta samkeppnisþjóð okkar. Þá kemur í ljós hvort Íslendingar eru á réttri leið.

Mikilvægi þorsks
Engin fisktegund hefur skilað jafnmiklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og þorskur. Hann hefur því löngum verið afar þýðingarmikill fyrir íslenskt efnahagslíf. Fjöldi afurða sem unnin er úr þorski er einstakur miðað við aðrar fisktegundir og engin önnur tegund er flutt til jafn margra landa. Þessir þættir skipta sköpum fyrir sveigjanleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og gera þeim kleift að mæta ófyrirséðum áskorunum og aðlagast nýjum aðstæðum þar sem kröfur neytandans ráða ferðinni.

Frá árinu 2009 hafa þorskafurðir að jafnaði vegið um 39% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Sem hlutfall af verðmæti alls vöruútflutnings hafa þær vegið um 16% á tímabilinu og ef við bætum þjónustuútflutningi við þá er hlutfallið 9%. Af þessu sést glögglega hversu mikilvægur þorskurinn er fyrir þjóðarhag. Hafa ber í huga að á þessu tímabili hefur orðið mikill vöxtur í öðrum útflutningsgreinum, eins og ferðaþjónustu, fiskeldi, nýsköpun og hugverkaiðnaði. Þrátt fyrir það hafa ekki miklar breytingar orðið á vægi þorskafurða í útflutningstekjum á tímabilinu.

Vöxtur í flestum öðrum útflutningi byggist á magni. En aukið útflutningsverðmæti sjávarafurða gerir það síður því veiðar eru takmarkaðar og nýting á fiskistofnum er sjálfbær. Það eru því aðrir þættir sem einnig skýra þá þróun eins og þorskurinn er ágætt dæmi um.  

Verðmæti koma ekki af sjálfu sér
Frá árinu 2009 hefur útflutningsverðmæti þorskafurða aukist nær stöðugt á ári hverju og þar koma fjölmargir þættir við sögu. Vissulega er ein ástæða aukning á aflamarki þorsks. En það er annað og meira sem hangir á spýtunni, sem blasir við þegar litið er á þróun verðmæta á hvert útflutt kíló af þorski. Á árinu 2021 var verðmæti hvers kílós ríflega helmingi hærra en það var á árinu 2009, mælt í erlendri mynt. Að raunvirði, þar sem miðað er við verðbólgu í iðnríkjum, var það hátt í 30% hærra.

Þetta sýnir ágætlega að fiskur úr sjó er ekki stöðluð vara og að verðmæti koma ekki af sjálfu sér eftir að hann hefur verið veiddur. Það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis. Þar ríkir hörð samkeppni og kröfur um gæði, hraða, afhendingu, rekjanleika og umhverfissjónarmið eru sífellt að aukast; hvergi má slaka á. Til þess að mæta kröfum markaðarins og hámarka verðmæti afurða eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki í þrotlausri vinnu við að bæta virðiskeðjuna, allt frá veiðum til lokasölu.

Fjárfesting skiptir sköpum
Virðiskeðja þorskafurða er að öllu leyti markaðsdrifin þar sem kröfur neytandans ráða ferðinni. Breyttar kröfur á markaði hafa leitt til þess að vinnsla á þorski og þar með samsetning þorskafurða í útflutningi hefur tekið miklum breytingum á þessari öld. Vinnsla hefur orðið sífellt flóknari og stöðugt meira er framleitt af ferskum afurðum, enda hefur spurn eftir þeim stóraukist. Til þess að mæta þessum áskorunum hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest í nýjum skipum og búnaði um borð, hátæknibúnaði fyrir vinnslu og nýsköpun og vöruþróun. Þessir þættir snúa allir að því að auka ferskleika, gæði og nýtingu og hafa því gengt lykilhlutverki við að skapa meiri verðmæti úr auðlindinni. Fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum hafa verið þær mestu í íslenskum sjávarútvegi frá árinu 1990, en það ár tóku upphaflegu lögin um stjórn fiskveiða gildi.

Aukinn ferskleiki
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutning á þorskafurðum á árunum 2009, 2015 og 2021, bæði magn og verðmæti. Þar sést að stærsti hluti aukningar á þorskafla frá árinu 2009 hefur farið í framleiðslu á ferskum flökum. Þau skapa mestu verðmætin og vinnsla á þeim krefst hátæknibúnaðar. Ef miðað er við verðmæti var hlutdeild ferskra flaka um 21% á árinu 2009 en 37% á árinu 2021. Þetta skýrir að sjálfsögðu hina miklu verðmætaaukningu á hvert útflutt kíló á tímabilinu - það er einfaldlega verið að framleiða og flytja út dýrari afurðir. Ýmsar aðrar breytingar hafa átt sér stað. Til dæmis hefur verulega dregið úr útflutningi á söltuðum afurðum á tímabilinu. Miðað við verðmæti var vægi þeirra um 34% á árinu 2009 en 18% á árinu 2021. Það er vert að geta þess að þessar breytingar eru að sjálfsögðu allar til komnar vegna breyttrar eftirspurnar viðskiptavina. En íslenskur sjávarútvegur er nánast að öllu leyti háður eftirspurn frá útlöndum því um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum markaði.

Sölu- og markaðsmál mikilvægur hlekkur
Samfara breytingum í vinnslu hafa miklar breytingar orðið á hlutdeild einstakra viðskiptalanda með þorskafurðir. Þar ber helst að nefna franska markaðinn sem hefur orðið æ mikilvægari með árunum og frá árinu 2017 hefur hann verið sá stærsti fyrir íslenskar þorskafurðir. Það kemur heim og saman við þá miklu aukningu sem orðið hefur í framleiðslu á ferskum afurðum. Miðað við útflutningsverðmæti þorskafurða á árinu 2021 hefur vægi franska markaðarins þrefaldast frá árinu 2009, eða úr í 8% í 24%. Þótt Frakkar séu þekktir matgæðingar og sæki mjög í ferskt og gott hráefni, þá hefur þessi breyting ekki orðið af sjálfu sér. Og til þess að bregðast við kröfum markaðarins hafa íslensk fyrirtæki fjárfest mikið í sölu, markaðssetningu og dreifileiðum, sem er mikilvægur hlekkur í virðiskeðjunni.  

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá vægi tíu stærstu viðskiptalanda Íslendinga með þorskafurðir á árinu 2021 og vægi þessara sömu landa á árunum 2009 og 2015. Þar sést að útflutningur til Bandaríkjanna hefur verið í mikill sókn, sem einnig má rekja til aukinnar spurnar eftir ferskum afurðum. Hlutdeild Spánar og Portúgals hefur dregist saman á þessu tímabili, því minna af fiski hefur verið verkaður í salt.

Nýting á heimsmælikvarða
Verðmæti þorskaflans er ekki bara mælt í seldum þorskafurðum, fleira kemur til. Fjölmörg fyrirtæki í nýsköpun hafa búið til aukin verðmæti úr svo kölluðum hliðarafurðum úr þorskinum, sem hér áður fyrr var hent. Þar má í raun tala um byltingu. Taka má dæmi af fyrirtækinu Kerecis sem gerir ráð fyrir að velta um 20 milljörðum króna á þessu ári. Það framleiðir svo kallað sáraroð úr þorskroði. Þá eru ótalin fyrirtæki sem framleiða aðrar lækningavörur, fæðubótarefni og snyrtivörur. Hér eru kannski stærstu tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarauðlindinni. Fyrir slíka vinnslu skiptir sköpum að fyrirtækin hafi aðgang að fyrsta flokks hráefni. Með ofangreindum fjárfestingum, sem ætlað er að tryggja gæði og ferskleika, er ljóst að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa hvergi slegið slöku við í þeim efnum. Fullnýting afurða hefur í raun verið eitt helsta viðfangsefni sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum. Samkvæmt greiningu frá Sjávarklasanum frá árinu 2021 hafa Íslendingar um langt árbil staðið öðrum þjóðum framar í nýtingu á hliðarafurðum úr hvítfiski. Í það minnsta 90% af hverjum þorski eru nýtt með einum eða öðrum hætti hér á landi, en víðast hvar annars staðar er hlutfallið 45-55%.

 

Deila frétt á facebook