Eldið komið í tæp 5% af vöruútflutningi

2. júlí, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í 11,6 milljarða króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Hefur það aldrei áður verið meira, í krónum talið, á fyrstu fimm mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra höfðu verið fluttar út eldisafurðir fyrir rúma 10,9 milljarða króna, sem þá var met. Er því um að ræða tæplega 6% aukningu í krónum talið á milli ára. Sömu sögu er þó ekki að segja um útflutningsverðmæti eldisafurða mælt í erlendri mynt, enda hefur lækkun á gengi krónunnar frá því um miðjan mars mikið að segja um verðmæti afurðanna í krónum talið. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti eldisafurða dregist lítillega saman, eða um tæpt 1%. Á fyrsta fjórðungi ársins hafði útflutningsverðmæti eldisafurða aukist um 21% í erlendri mynt, og er því nokkuð ljóst að farsóttin hefur þurrkað upp þá myndarlegu aukningu sem komin var. Þennan lítilsháttar samdrátt má að öllu leyti rekja til lækkunar á afurðaverði erlendis sem aftur má rekja til áhrifa COVID-19 líkt og við höfum fjallað um á Radarnum. En að magni til hefur útflutningur á eldisafurðum aukist aðeins á milli ára.

Lækkun á afurðaverði leiðir til verulegs samdráttar
Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 1,7 milljörðum króna í maí samanborið við 2,3 milljarða í maí í fyrra. Það er rúmlega 26% samdráttur í krónum talið á milli ára en 35% í erlendri mynt. Þar af nam útflutningsverðmæti eldislax tæplega 1,2 milljörðum króna samanborið við rúmlega 1,8 milljarða króna í maí í fyrra. Það er 37% samdráttur í krónum talið á milli ára en 44% í erlendri mynt. Á sama tímabili jókst útflutningur á eldislaxi um rúm 19% í kílóum talið og er ljóst að samdráttinn má að öllu leyti rekja til verulegrar lækkunar á afurðaverði á milli ára. Á hinn bóginn var útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, 57% meira í krónum talið nú í maí en í sama mánuði í fyrra. Aukningin í erlendri mynt er ívið minni, eða 39%. Virðist það sama vera upp á teningnum með afurðaverð þar eins og á laxi, þar sem aukningin í kílóum talið er mun meiri, eða 81% á tímabilinu. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti fyrr í vikunni.

Eldið eflist
Án útfluttra skipa og flugvéla er vöruútflutningur kominn í um 249 milljarða króna í ár samanborið við rúma 264 milljarða króna í fyrra. Það er um 6% samdráttur í krónum talið á milli ára en um 13% mælt í erlendri mynt. Nokkuð ljóst er að samdráttinn má rekja til stærstu undirliðanna tveggja í vöruútflutningi, það er sjávarafurða og álafurða en í báðum tilvikum mælist um 14% samdráttur í útflutningsverðmætum í erlendri mynt. Þannig að þrátt fyrir lítilsháttar samdrátt í útflutningsverðmæti eldisafurða í erlendri mynt, er sú aukning sem orðið hefur á framleiðslunni þar afar jákvæð fyrir útflutningsflóru þjóðarbúsins. Ef áætlanir fiskeldisfyrirtækja í ár ná fram að ganga, sem hljóða upp á aukna framleiðslu, verður greinin eflaust ein fárra útflutningsgreina sem munu skila meiri útflutningstekjum til þjóðarbúins í ár en í fyrra. Sem hlutdeild af útflutningsverðmætum vöruútflutnings á fyrstu fimm mánuðum ársins eru útflutningsverðmæti eldisafurða komið í tæp 5% og hefur það aldrei áður verið hærra, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan.

 

Deila frétt á facebook