Er norska leiðin alltaf farsælli?
29. nóvember, 2024
Í grein á Radarnum í gær var fjallað um að verðmæti spretta ekki upp af sjálfu sér við það eitt að fiskur sé dreginn úr sjó. Þar var ýsa til umfjöllunar, en þróunin þar er einmitt ágætt dæmi um það. Hægt er að fara ýmsar ólíkar leiðir í verðmætasköpun og sjálfsagt er engin ein leið sú eina rétta fyrir öll lönd. Í því samhengi er ágætt að líta til Norðmanna, sem er ein helsta samkeppnisþjóð Íslendinga í framleiðslu og sölu á fiskafurðum.
Samkeppnishæfni fiskvinnslu
Ísland og Noregur eiga það sammerkt að vera hvoru tveggja hálaunalönd í alþjóðlegum samanburði. Launakostnaður fyrirtækja sem þar starfa er því almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Það endurspeglast ágætlega í gögnum Hagstofu Evrópusambandsins um launakostnað á klukkustund, sem samanstendur af launum og tengdum gjöldum. Noregur skipar þar annað sætið og Ísland hið þriðja, en þau eru ávallt ofarlega í röðinni yfir þau lönd þar sem launakostnaður er hvað hæstur. Útflutningsgreinar, líkt og sjávarútvegur, eiga því á brattann að sækja í þessum löndum, enda verða fyrirtækin að greiða samkeppnishæf laun innanlands til þess að fá fólk til starfa. Þetta reynir því sérstaklega á samkeppnishæfni fiskvinnslu í löndunum tveimur, en í þeim efnum fara þau ólíkar leiðir.
Tvær leiðir í boði
Fiskvinnsla verður að geta boðið samkeppnishæf laun til þess að fá fólk til starfa. Hjá hálaunaþjóðum eins og Íslandi og Noregi er því tvennt í stöðunni, að hagræða með því að flytja störf úr landi eða auka tæknivæðingu. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa valið síðari leiðina, enda leggja þau ríka áherslu á verðmætasköpun heima fyrir. Til þess hafa þau ráðist í verulegar fjárfestingar í hátæknibúnaði fyrir fiskvinnslu. Sá búnaður er jafnframt að langmestu leyti íslenskur og þarf vart að nefna þau jákvæðu afleiddu áhrif sem slík fjárfesting hefur í för með sér innanlands. Vinnslan hér á landi hefur því þróast í að vera stöðugt flóknari og í átt að ferskum afurðum sem seldar eru á hærra verði en minna unnar afurðir. Aukin tæknivæðing hefur því verið undirstaða verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi og ekki síður bættra kjara og aðbúnaðar starfsfólks. Hún hefur vissulega fækkað störfum, en um leið gert þau verðmætari þar sem störfin verða oft og tíðum sérhæfðari þar sem hærra menntunarstigs er þörf. Á sama tíma hafa Norðmenn dregið úr framleiðslu á unnum afurðum og hafa í auknum mæli selt fisk heilan úr landi og til vinnslu í öðrum löndum þar sem launakostnaður er lægri.
Mishátt vinnslustig heima fyrir
Munur á vinnslustigi landanna tveggja endurspeglast ágætlega á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir útflutning á ýsu eftir grófri afurðaflokkum á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þar má sjá að á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa Íslendingar flutt út tæplega 32 þúsund tonn af ýsuafurðum fyrir tæpa 28 milljarða króna. Á sama tíma hafa Norðmenn flutt út rúmlega 45 þúsund tonn af ýsuafurðum fyrir rúma 19 milljarða króna. Samanlögð hlutdeild á heilli og hauskorinni ýsu, kældri eða frystri, í heildarútflutningi á ýsu var 31% á Íslandi en 94% í Noregi, en hér er miðað við magn.
Hráefni til frekari vinnslu
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá fjögur stærstu viðskiptalönd Norðmanna með ýsuafurðir, það er Bretland, Kína, Danmörk og Bandaríkin. En miðað við hversu mikið Norðmenn flytja út af heilli ýsu er nokkuð ljóst að erfitt er að ráða af útflutningstölum einum og sér hvar ýsan endar. Þó má reikna með að það sem er flutt til Bretlands og Bandaríkjanna endi að stórum hluta á diski neytenda þar í landi. Öðru máli gegnir með Kína og Danmörku. Útflutningur til Kína felst nánast alfarið í heilfrystri ýsu sem er þá hráefni til vinnslu þar í landi. Reikna má með að hún sé að langstærstum hluta flutt frá Kína að lokinni vinnslu og rati jafnvel á disk neytenda í Evrópu, rétt eins og með þorskinn sem Norðmenn flytja jafnframt í miklu magni til Kína. Til Danmerkur fer aðallega heil kæld ýsa sem Danir vinna oft og tíðum og selja hana svo áfram til annarra landa. Hins vegar fer einnig mjög mikið í gegnum Danmörku til vinnslu í öðrum löndum. Eins og fjallað var um á Radarnum í gær þá eru Bretland, Bandaríkin og Frakkland þrjú stærstu viðskiptalönd Íslendinga með ýsuafurðir. Þó eitthvað sé um útflutning frá Íslandi til Bretlands á heilli ýsu þá er langstærsti hlutinn fryst flök. Langstærsti hluti þess sem fer til Bandaríkjanna og Frakklands eru fersk flök.
Skipulag veiða og vinnslu ólíkt
Þessi áherslumunur landanna tveggja á verðmætasköpun heima fyrir endurspeglast einnig í öðrum fisktegundum eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar má jafnframt sjá að þessi mismunur í vinnslustigi Íslendinga og Norðmanna sést vel í því verðmæti sem þjóðir fá fyrir hvert útflutt kíló. Þar er munurinn sérlega mikill á ýsu, enda er munurinn á vinnslustigi hvað mestur þar.
Þennan áherslumun landanna tveggja, þegar kemur að því að vinna og flytja út ýsu, þorsk og ufsa, má að mestu leyti rekja til ólíks skipulags á veiðum og vinnslu. Grundvöllur sjávarútvegs hér á landi byggist á samþættingu veiða, vinnslu og markaðar. Það leiðir til þess að keppst er við að hámarka gæði og verðmæti afurða allan ársins hring. Það hefur jákvæð áhrif á örugg heilsárstörf í sjávarútvegi hér á landi, ólíkt því sem gerist í Noregi. Þar er grundvallarreglan sú að veiðar og vinnsla eru aðskilin þar sem keppst er við að veiða fiskinn þegar auðveldast er að ná í hann. Þetta veldur augljóslega fiskvinnslu þar í landi miklum erfiðleikum þar sem framboð á fiski, sem jafnframt getur verið í mismiklum gæðum, getur verið mjög mikið yfir stutt tímabil. Störfin eru því árstíðabundin, auk þess sem ekki er hægt að sinna kröfum einstakra markaða allan ársins hring.
Ávinningur þjóða mismikill
Eftir ofangreindan lestur má eflaust velta fyrir sér ástæðu þess að þjóðirnar fara í ólíka átt þegar kemur að framleiðslu og útflutningi á fiski. Jafnframt má velta fyrir sér hvor leiðin sé betri og þá fyrir hvern. Hér ber að hafa í huga að verulegur munur er á mikilvægi sjávarútvegs í efnahagslegu tilliti á Íslandi og í Noregi. Það leiðir síðan til mismikils svigrúms sem þjóðirnar hafa til að haga málum í sjávarútvegi.
Á Íslandi hafa sjávarafurðir vegið í kringum 40% af verðmæti alls vöruútflutnings undanfarinn áratug. Á sama tíma hefur hlutdeild sjávarútvegs í Noregi verið á bilinu 2-3%, en þar eru olía og gas langstærstu liðirnir í vöruútflutningi. Þessi munur á mikilvægi skýrir vafalaust að miklu leyti þær ólíku leiðir sem þjóðirnar fara. Noregur er í raun að stærstum hluta hráefnisframleiðandi þar sem umgjörð sjávarútvegs snýst fyrst og fremst um að styðja við strandbyggðir. Sjávarútvegur hefur á hinn bóginn verið einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur Íslendinga og ein mikilvægasta stoð efnahags og góðra lífskjara. Það er því ekki um annan kost að ræða en að reka hann á eins hagkvæman hátt og kostur er svo hann skili sem mestum þjóðhagslegum ábata. Norska leiðin er því síður vænleg með það markmið í huga.
Nýverið lét norski sjávarútvegsráðherrann hafa það eftir sér að ekki komi til greina að innleiða auðlindaskatt á norskan sjávarútveg. Vildi ráðherrann fremur að lögð yrði áhersla á að arðurinn kæmi úr aukinni verðmætasköpun greinarinnar og frá blómlegu atvinnulífi og búsetu meðfram strandlengju Noregs. Þetta er áhugaverð afstaða, sér í lagi þegar horft er til umræðu á vettvangi stjórnmála um íslenskan sjávarútveg. Hér á landi virðist megináhersla sumra stjórnmálaflokka vera á aukna skattlagningu, í stað þess að hlúa betur að þeim þáttum sem mest verðmæti skapa fyrir samfélagið í heild sinni. Staða Íslands er öfundsverð, enda hefur verðmætasköpun Íslendinga úr sjávarauðlindinni aldrei verið meiri en á undanförnum árum og samhliða því hefur skattspor íslensks sjávarútvegs aldrei verið stærra. Þar berum við höfuð og herðar yfir frændur okkar í Noregi, líkt og hér hefur verið fjallað um. Þar að auki er öflug sjávarútvegsfyrirtæki að finna í öllum landshlutum sem leiðir til þess að engin atvinnugrein er með jafnari dreifingu atvinnutekna um landið en sjávarútvegur. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda og atvinnugreinarinnar að treysta enn frekar þessi jákvæðu áhrif.