Fiskeldi er framtíðin

19. júlí, 2024

Á fyrstu sex mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 24 milljarða króna. Það er nokkuð myndarleg aukning frá sama tímabili í fyrra, eða sem nemur tæplega 14% í krónum talið. Aukningin er aðeins meiri í erlendri mynt, eða tæp 15%. Vart þarf að taka fram að útflutningsverðmæti eldisafurða hefur aldrei verið meira á fyrri árshelmingi en nú í ár. Verðmætin eru rúmlega 14% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og það hlutfall hefur aldrei áður verið hærra á tilgreindu tímabili. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í júní sem birtar voru fyrr í þessum mánuði. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur ræðir liggur ekki fyrir sundurliðun á útflutningsverðmæti niður á tegundir í júní, eða þá fyrir fyrstu sex mánuði ársins. 

 


Eldi tekur fram úr veiðum

Eins og sést á myndinni hér á undan, þá hefur útflutningsverðmæti eldisafurða sem hlutfall af verðmæti sjávarafurða aukist verulega undanfarinn áratug. Fyrir um áratugi síðan var hlutfallið innan við 3%. Ekki er við öðru að búast en að hlutdeildin hækki enn frekar á komandi árum, enda hefur eldi þá burði til að vaxa að magni til á skömmum tíma, ólíkt sjávarútvegi sem sækir í takmarkaða auðlind sem byggist á sjálfbærri nýtingu. Það  rímar ágætlega við þá þróun sem á sér stað á heimsvísu og fjallað er um í nýrri og umfangsmikilli skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (FAO), um stöðu fiskveiða og lagareldis í heiminum.

Í skýrslunni er farið yfir þá miklu aukningu sem hefur orðið á framleiðslu lagarafurða undanfarna áratugi. Með lagarafurðum (e. aquatic products) er átt við allar þær afurðir sem koma frá fiskveiðum og eldi, svo sem fisk, rækju, krabbadýr o.s.frv., en framleiðsla þörunga er undanskilin. Þar kemur fram að heildarframleiðsla lagarafurða á heimsvísu hafi numið um 185 milljónir tonna á árinu 2022 og hefur hún aldrei verið meiri. Til marks um þá miklu aukningu sem orðið hefur á framleiðslunni má nefna að fyrir rúmum 40 árum var framleiðslan í heild í kringum 75 milljónir tonna og fyrir um 30 árum um 100 milljónir tonna. Langstærsti hluti þessarar aukningar hefur komið frá lagareldi, enda hefur afli frá fiskveiðum verið svo til stöðugur frá árinu 1990, eða í kringum 90 milljónir tonna.

Framleiðslan á lagarafurðum á árinu 2022 skiptist þannig að um 91 milljónir tonna komu frá hefðbundnum veiðum og 94,4 milljónir frá lagareldi, eða 49% á móti 51%. Þetta er í fyrsta sinn sem framleiðsla á eldisafurðum tekur fram úr því sem kemur frá hefðbundnum veiðum.

 

 

Stærri hluti fer til manneldis

Hlutur lagareldis af heildarframleiðslunni er í raun enn stærri þegar einungis er tekið mið af þeirri framleiðslu sem fer til manneldis, eða sem nemur 57%. Aukið lagareldi hefur því gert það að verkum að mun stærri hluti af heildarframleiðslunni fer til manneldis nú en áður. Á árinu 2022 var hlutfallið 89% en í byrjun tíunda áratug síðustu aldar hafði það að jafnaði verið í kringum 70%. Afgangurinn fer að stærstum hluta í framleiðslu á fiskimjöli og lýsi. Þessi þróun er afar jákvæð enda rík þörf fyrir aukna prótínframleiðslu til að mæta vaxandi fæðuþörf mannkyns þegar jarðarbúum fer stöðugt fjölgandi.

Eldi á laxfiskum, þ.e. silungi og laxi, er aðeins brot af framleiðslu eldisafurða. Framleiðsla laxfiska nam um 4,2 milljónum tonna á árinu 2022, sem er um 4,5% af framleiðslu lagareldisafurða. Vatnakarpi og skyldar tegundir, sem er ferskvatnsfiskur, skipa fyrsta sætið en framleiðsla þeirra nam um 31,8 milljónum tonna á árinu 2022.  Það jafngildir um þriðjungi af framleiðslu eldisafurða á árinu 2022. Næst á eftir koma risarækjur (7,9 milljónir tonna) og svo ostrur (7,0 milljónir tonna).


Aukin eftirspurn

Bættar geymsluaðferðir hafa gert það að verkum að hægt er að dreifa lagarafurðum á stærra svæði en áður. Þá hefur fjölgun jarðarbúa og þeirra sem teljast til millistéttar stóraukið eftirspurn eftir lagarafurðum á heimsvísu. Í dag neytir fólk því hlutfallslega meira af lagarafurðum en áður. Á sjöunda áratug síðustu aldar var meðalneysla á lagarafurðum á mann á heimsvísu að jafnaði um 9,9 kíló og áætlar FAO að hún hafi verið komin í 20,7 kíló á árinu 2022.

 

 

FAO gerir ráð fyrir að ofangreind þróun haldi áfram og að neysla lagarafurða á mann verði komin í 21,3 kíló á árinu 2032. Reiknar stofnunin með að heildarframleiðsla á lagarafurðum verði komin í 205 milljónir tonna á árinu 2032, sem er aukning upp á 19 milljónir tonna frá árinu 2022, eða sem nemur um 10%. Ljóst er að framleiðsla frá hefðbundnum fiskveiðum, sem hefur að stærstum hluta náð sjálfbærum þolmörkum, getur ekki mætt þessari vaxandi eftirspurn í sama mæli og eldi. FAO væntir jafnframt þess að langstærsti hluti þessarar aukningar komi frá lagareldi og reiknar með að framleiðsla eldisafurða verði komin í tæp 111 milljónir tonna á árinu 2032. Það jafngildir aukningu upp á 16 milljónir tonna frá árinu 2022, eða sem nemur um 17%. FAO gerir þó ráð fyrir að afli frá fiskveiðum muni aukast um 3 milljónir tonna og verða tæpar 94 milljónir tonna á árinu 2032. Þar spilar m.a. bætt fiskveiðistjórnun og aukin tæknivæðing lykilhlutverki. Stofnunin reiknar með að hlutur lagareldis í þeirri framleiðslu sem fer til manneldis verði kominn í 60% á árinu 2032 samanborið við 57% á árinu 2022.


Mikil tækifæri fyrir Íslendinga

Mikilvægi lagareldis við að mæta vaxandi fæðuþörf mannkyns og aukinni eftirspurn eftir prótínríkri fæðu liggur því í augum uppi. Þannig má vera ljóst að þau tækifæri sem standa frammi fyrir Íslendingum til aukinnar verðmætasköpunar í hagkerfinu í gegnum lagareldi eru mikil. Sá vöxtur mun án nokkurs vafa vera þjóðinni til heilla, enda eykur hann fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélög víða um land.

 

Deila frétt á facebook