Fiskeldi: Fjárfesting í fiskeldi aldrei meiri

19. apríl, 2024

Fáar atvinnugreinar hér á landi hafa verið í jafn mikilli sókn á undanförnum árum og fiskeldi. Sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað kemur eðlilega ekki til af sjálfu sér enda liggur gríðarleg vinna og fjármagn að baki við skipulag og framkvæmdir af hálfu fyrirtækjanna. Sú staðreynd blasir við í nýlegri samantekt Hagstofunnar um fjármunamyndun í greininni og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar má jafnframt sjá að á síðustu fjórum árum hefur hvert árið toppað annað í þeim efnum og bendir allt til þess að fjárfesting í fiskeldi á árinu 2023 hafi verið sú mesta í sögunni. 

Mikil uppbygging er jafnframt í greininni nú um stundir og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun miðað áætlanir fiskeldisfyrirtækja sem ala, eða stefna á að ala fisk, hvort sem er á landi eða í sjó. Aukning í framleiðslu undanfarinna ára hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af laxi úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum og á Austurlandi. Framleiðsla á landi hefur verið töluvert minni, en horfur eru á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn enda hafa miklar fjárfestingar farið til uppbyggingar landeldisstöðva sem áform eru um á Reykjanesi, Ölfusi og Vestmannaeyjum. 


Öflugur og fjölbreyttur útflutningur skiptir sköpum

Í þessu samhengi fer vel að nefna útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 16 milljörðum króna nú á fyrsta ársfjórðung og hefur aldrei verið meira í upphafi árs. Það er um 5% aukning á milli ára á föstu gengi. Auk fiskeldis jukust verðmæti útfluttra lyfja og lækningatækja á tímabilinu, en samdráttur var í öllum öðrum helstu undirliðum vöruútflutnings. Í heild dróst verðmæti vöruútflutnings saman um tæp 7% á milli ára á fyrsta fjórðungi. Hlutdeild eldisafurða í verðmæti vörútflutnings jókst því töluvert á milli ára, eða úr 6,5% í 7,2%. 


Miðað við ofangreinda þróun er ekki að undra að stjórnvöld hafi miklar væntingar um framtíðaruppbyggingu í fiskeldi hér á landi. Það mátti glögglega sjá í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2025-2029 sem nýr fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnti nú í vikunni. Auk fiskeldis voru hugverkaiðnaður, tæknitengd þjónusta og skapandi greinar nefndar sem helstu vaxtabroddar útflutnings til framtíðar. Þegar öllu er á botninn hvolft má vera ljóst að vöxtur í fiskeldi er þjóðinni til heilla, enda hvílir efnahagsleg hagsæld Íslendinga, hér eftir sem hingað til, á öflugum og fjölbreyttum útflutningsgreinum. 


 

Deila frétt á facebook