Fiskeldi: Tvöföldun á milli ára

12. apríl, 2021

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 5,5 milljörðum króna í mars. Þetta er langstærsti mánuðurinn í útflutningi á eldisafurðum frá upphafi. Miðað við sama tíma í fyrra er þetta tvöföldun á útflutningsverðmætum á föstu gengi og ef miðað er við næststærsta mánuðinn voru verðmætin nú í mars 40% meiri. Miðað við verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í heild nam útflutningsverðmæti eldisafurða um 9%, sem er langhæsta hlutfall frá upphafi. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 26,9 milljarðar króna í mars og því er ljóst að fiskur var mjög fyrirferðarmikill í útflutningi í mánuðinum, eða um 53% af verðmæti vöruútflutnings í heild. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum um vöruskipti sem Hagstofan birti í morgun, en nánari sundurliðun á einstaka eldisafurðum verður birt undir lok mánaðar.


Stærsti ársfjórðungur frá upphafi
Á fyrsta ársfjórðungi er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 11,5 milljarða króna, sem er um 31% aukning miðað við sama tímabil í fyrra á föstu gengi. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, er um að ræða stærsta ársfjórðung frá upphafi og var útflutningsverðmæti eldisafurða rúmlega 7% af heildarverðmæti vöruútflutnings á fjórðungnum. Líkt og fram kemur í nýrri ríkisfjármálaáætlun, er mikill vöxtur í fiskeldi til marks um hvernig bein erlend fjárfesting getur gengt lykilhlutverki í að hraða vexti í atvinnugrein þar sem þekking berst á milli landa. Sú þróun er afar jákvæð fyrir þjóðarbúið og er fiskeldi ein fárra útflutningsgreina sem hefur verið í vexti undanfarin misseri. Þar kemst raunar engin atvinnugrein með tærnar þar sem fiskeldi hefur hælana.
 

 

Deila frétt á facebook