Veiðigjald: Óvenju lítil breyting þrátt fyrir loðnubrest
15. nóvember, 2024
Íslenskar útgerðir hafa greitt um 7.512 milljónir króna í veiðigjald á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er um 5% lægri fjárhæð en þær höfðu greitt fyrir veiðar á sama tímabili í fyrra, en þá var heildarfjárhæð veiðigjaldsins komin í 7.867 milljónir króna. Enginn loðnukvóti var gefin út á þessu ári sem hefur óhjákvæmilega áhrif á fjárhæð veiðigjaldsins í ár, en á síðasta ári skiluðu loðnuveiðar 1.784 milljónum króna í veiðigjald. Það má því segja að það sé óvenjulítil breyting á heildarfjárhæð veiðigjaldsins miðað við það stóra högg sem loðnubrestur hefur í för með sér. Ef veiðigjald vegna loðnu er tekið út fyrir sviga er fjárhæð veiðigjaldsins um 24% hærri á fyrstu níu mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra.
Þorskur skilar mestu
Að vanda hafa þorskveiðar skilað hæstri fjárhæðinni í veiðigjald á fyrstu níu mánuðum ársins, eða sem nemur 4.171 milljón króna. Það er rúmlega 45% hærri fjárhæð en veiðar á þorski skiluðu á sama tíma í fyrra, en þá nam hún 2.869 milljónum króna. Það má að stærstum hluta rekja til þess að upphæð veiðigjaldsins á hvert kíló af þorski er mun hærri í ár en hún var í fyrra, eða 26,66 krónur á móti 19,17 krónum. Það má svo aftur rekja til þess að afkoma af þorskveiðum var mun betri árið 2022 en 2021, en upphæð veiðigjaldsins í ár er byggð á afkomu ársins 2022. Eins og flestum er kunnugt um þá nemur veiðigjald 33% af afkomu fiskveiða. En afkoman getur sveiflast verulega á milli ára, enda er sjávarútvegur fjölmörgum óvissuþáttum háður. Þar að auki var þorskaflinn um 5% meiri á téðu tímabili í ár en í fyrra. Aflinn skiptir eðlilega einnig máli í þessu sambandi, enda er sú fjárhæð sem fyrirtækin greiða í veiðigjald af tiltekinni tegund einfaldlega margfeldi af afla og upphæð veiðigjaldsins.
Veiðar á ýsu hafa skilað næsthæstri fjárhæðinni, eða sem nemur 1.346 milljónum króna. Það er einnig töluvert hærri fjárhæð en ýsuveiðar skiluðu á sama tímabili í fyrra í veiðigjald. Það má hvort tveggja rekja til þess að aflinn er um 30% meiri í ár en í fyrra og krónutala veiðigjaldsins er hærri í ár en í fyrra, eða 22,28 krónur á móti 19,82 krónum. Veiðar á kolmunna skipa svo þriðja sætið í þessari upptalningu, en þær hafa skilað 789 milljónum króna í veiðigjald. Þar er jafnframt saman sagan; kolmunnaaflinn er rúmlega 6% meiri á tilgreindu tímabili í ár en í fyrra og greiða þarf 3,20 krónur fyrir hvert kíló af kolmunna í ár samanborið við 2,49 krónur í fyrra. Veiðigjald af öllum öðrum tegundum en hér eru tilgreindar nemur samtals 1.726 milljónum króna. Sjá má ítarlega sundurliðun á þeirri fjárhæð í töflunni hér fyrir neðan. Þar má sjá afla, hið eiginlega veiðigjald (krónur á hvert kíló) og tekjur ríkissjóðs af hverri tegund, bæði í ár og í fyrra.
Stærri útgerðir greiða hærra veiðigjald fyrir hvert kíló
Í töflunni hér fyrir neðan má að auki sjá hversu mikill afsláttur hefur verið veittur af veiðigjaldinu á fyrstu níu mánuðum ársins, en hann er komin í 521 milljónir króna í ár samanborið við 431 milljón á sama tímabili í fyrra. Í umræðunni um veiðigjald vill oft gleymast að það er til staðar frítekjumark sem veitir minni útgerðum ákveðna ívilnun. Þannig fær hver gjaldskyldur aðili 40% afslátt af fyrstu 8.76.090 krónum sem hann greiðir í veiðigjald í ár. Árið 2023 var miðað við 7.867.162 krónur, en fjárhæðin tekur breytingum í takti við vísitölu neysluverðs. Með þessum hætti nýtur langstærsti hluti þeirra sem greiðir veiðigjald veglegs afsláttar af gjaldinu.
Á undanförnum árum hafa rúmlega 900 útgerðir greitt veiðigjald á ári hverju og þar af hafa um 90% þeirra fengið fullan 40% afslátt af allri þeirri fjárhæð sem þær greiða í veiðigjald. Þessi afsláttur kemur sér einkar vel fyrir minni útgerðir en eðli málsins samkvæmt eru áhrif afsláttarins mest fyrir þá. Hlutfallslegur afsláttur minnkar eðlilega eftir því sem aðilar greiða hærri fjárhæð í veiðigjald, og þá umfram þessa viðmiðunarfjárhæð, en hann nam til dæmis á bilinu 0,3% til 1% hjá tíu stærstu útgerðunum árið 2023. Með þessum hætti greiða stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hærra veiðigjald af hverju kílói af fiski upp úr sjó en aðrir sem stunda fiskveiðar.