Verðmætasköpun á Vestfjörðum springur út

19. nóvember, 2024

Fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 80% af starfsfólki í fiskeldi býr á landsbyggðinni og um 80% af atvinnutekjum í greininni koma í hlut einstaklinga sem þar búa. Þetta hlutfall er á svipuðu róli og í sjávarútvegi og það er því aðeins landbúnaður sem stendur greinunum framar í þessum efnum.  

 

Af einstaka landshlutum skera Vestfirðir sig úr, en rekja má um þriðjung alls launafólks og atvinnutekna í fiskeldi til einstaklinga sem þar búa. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, en þær tölur eru birtar niður á landshluta og einstaka sveitarfélög. Það eru afar mikilvægar upplýsingar, enda sýna þær bæði hvernig tekjur einstaka atvinnugreina dreifast um landið og hvaða atvinnugreinar það eru sem standa undir tekjum íbúa á einstaka landsvæðum. Atvinnulíf er undirstaða byggðar í landinu og hversu öflugt það er endurspeglast vel í samfélaginu, eins og til dæmis í íbúaþróun, menningarlífi, fasteignamarkaði og fjárhagstöðu sveitarfélaga. Það er því áhugavert að rýna í þessar tölur Hagstofunnar fyrir Vestfirði.

 

Áhrifin greinileg á Vestfjörðum

Að jafnaði fengu um 280 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins á Vestfjörðum. Miðað við sama tímabil árið 2013 hefur fjöldinn fjórfaldast. Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar á Vestfjörðum, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu ríflega 2.500 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er átta sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2013.

 

Rúmlega 9% atvinnutekna má rekja til fiskeldis

Atvinnutekjur af fiskeldi nema rúmlega 9% sem hlutfall af heildaratvinnutekjum á svæðinu á fyrstu níu mánuðum ársins. Árið 2013 var hlutfallið innan við 2%. Sé hins vegar tekið mið af atvinnutekjum þess hluta sem Hagstofan nefnir viðskiptahagkerfið, en þar er t.d. hið opinbera undanskilið, þá vegur fiskeldið rúm 14%. Þetta hlutfall var rúm 2% árið 2013. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, þá hafa þessi hlutföll aldrei verið hærri en nú í ár.

 

Í þessu samhengi má ekki gleyma þeirri staðreynd að áhrif fiskeldis er öllu meiri í efnahagslegu tilliti á Vestfjörðum en þessar tölur gefa til kynna. Ástæðan er sú að fiskeldi er gunnatvinnuvegur, sem þýðir að greinin hefur mun meiri efnahagslega þýðingu en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig er önnur atvinnustarfsemi á svæðinu háð starfsemi fiskeldisfyrirtækja en þau ekki eins háð starfsemi annarra atvinnuvega, að minnsta kosti ekki í sama mæli. Þessi afleiddu og óbeinu áhrif greinarinnar eru því umtalsverð sem ná langt út fyrir þessar tölur.

Önnur stærst á Vestfjörðum

Þessi mikla uppbygging í fiskeldi á Vestfjörðum hefur orðið til þess að fiskeldi eitt og sér skilar nú næstmestum atvinnutekjum af öllum atvinnugreinum á svæðinu, að opinberri starfsemi undanskilinni. Aðeins sjávarútvegur stendur fiskeldi framar í þeim efnum. Ferðaþjónustan er önnur atvinnugrein sem hefur verið kærkomin búbót fyrir íslenskt samfélag undanfarinn rúman áratug og hefur jafnframt haft jákvæð og víðtæk áhrif á fjöldi byggðarlaga víða um land. Hún er vissulega mun stærri en fiskeldi á landsvísu og áhrifa hennar hefur gætt á Vestfjörðum, en þar hafa þau verið öllu minni en í flestum öðrum landshlutum.

 

Séu atvinnutekjur af fiskeldi á Vestfjörðum bornar saman við samanlagðar tekjur af hinum ýmsu greinum er tengjast ferðaþjónustu á svæðinu kemur í ljós að þær voru hátt í 70% meiri af fiskeldi en af ferðaþjónustu á fyrstu níu mánuðum ársins. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærsti hluti landsmanna býr, voru atvinnutekjur af fiskeldi hins vegar rétt um 1,5% af atvinnutekjum af ferðaþjónustu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá vægi fiskeldis, ferðaþjónustu og sjávarútvegs í heildaratvinnutekjum á þessum tveimur svæðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Þessar tölur endurspegla vel að áhrif fiskeldis á íslenskt samfélag eru ekki öllum jafn augljós og að þau eru til að mynda mun sýnilegri íbúum á Vestfjörðum en íbúum höfuðborgarsvæðisins.

 

Öflugt atvinnulíf er grunnur að sterku samfélagi

Áhugavert er að rýna í hvernig atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa þróast á Vestfjörðum í samanburði við aðrar atvinnugreinar á svæðinu. Hér ber vissulega að halda til haga að um er að ræða grófa nálgun þar sem ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa verið töluvert hærri en að jafnaði í öllum atvinnugreinum samanlagt á undanförnum árum á Vestfjörðum. Aukin umsvif fiskeldisfyrirtækja hafa því vafalaust haft jákvæð áhrif á tekjur sveitarfélaga á Vestfjörðum, enda er útsvar einn helsti tekjustofn þeirra.

 

Í þessu samhengi er rétt að nefna að þriðjungur af fiskeldisgjaldinu, þ.e. auðlindagjaldinu sem sjókvíeldisfyrirtæki greiða, rennur í sjóð sem úthlutað er úr til að styrkja innviði sveitarfélaga og atvinnulíf á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjó er stundað. Í ár fengu fimm sveitarfélög á Vestfjörðum úthlutað samtals 246 milljónum króna úr sjóðnum í ýmis verkefni, eins og í nýjan grunn- og leikskóla á Bíldudal og verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá leikur enginn vafi á því að fiskeldi hefur reynst kærkomin búbót í atvinnuflóru Vestfirðinga og aukin umsvif þess hafa haft jákvæð og víðtæk áhrif á allt samfélagið.

 

Deila frétt á facebook