Ágætis byrjun
21. maí, 2022
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam ríflega 31 milljarði króna í apríl samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Það er um 15% aukning í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Vegna hækkunar á gengi krónunnar er aukningin nokkuð meiri í erlendri mynt eða sem nemur um 20%. Útflutningsverðmæti sjávarafurða er þar með komið í rúma 108 milljarða króna á fyrstu 4 mánuðum ársins sem er um 21% aukning frá sama tímabili í fyrra, mælt í erlendri mynt. Það er þó ívið minni aukning en í fyrstu var talið enda var verðmæti sjávarafurða í mars ofmetið um tæpa 10 milljarða króna í fyrstu tölum Hagstofunnar. Hvað sem því líður er óhætt að segja að árið fari ágætlega af stað í íslenskum sjávarútvegi. Útflutningsverðmæti á fyrsta ársþriðjungi hafa aldrei verið meiri eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná sem er frá árinu 2002. Á það bæði við um í krónum talið og erlendri mynt og jafnframt þegar tölurnar hafa verið leiðréttar fyrir verðbólgu erlendis. Þrátt fyrir þessa myndarlegu aukningu er vægi sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings á fyrstu 4 mánuðum ársins minna í ár en það hefur áður verið á þessari öld. Það nemur nú rúmlega 35% af verðmæti vöruútflutnings samanborið við rúmt 41% á sama tímabili í fyrra. Það skýrist augljóslega af því að verðmæti annars vöruútflutnings er að aukast umfram sjávarafurðir. Þá aukningu má í mun meira mæli rekja til verðhækkana fremur en magnaukningar.
Loðnan spilar vafalaust stóra rullu
Þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur og því er ekki hægt að sjá útflutningsverðmæti einstakra tegunda eða magn. Þó má telja nokkuð víst að loðnan gegni stóru hlutverki. Stærstan hluta af aukningunni má rekja til fiskimjöls. Útflutningsverðmæti þess nam um 6,2 milljörðum króna í apríl sem er um 660% aukning frá sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Útflutningsverðmæti lýsis nam rúmlega 2,2 milljörðum króna sem er ríflega 280% aukning á milli ára. Á hinn bóginn er verulegur samdráttur í öðrum afurðaflokkum þar sem loðnuafurðir koma gjarnan við sögu, það er „aðrar sjávarafurðir“ (-54%) og svo heilfrystur fiskur (-45%). Loðnuhrogn tilheyra fyrrnefnda flokknum, en þau fóru að birtast í útflutningstölum af töluverðum krafti í apríl í fyrra. Sömu sögu er að segja um heilfrysta loðnu sem flokkast sem „heilfrystur fiskur“. Margir þættir geta skýrt samdrátt á milli ára. Flöskuhálsar hafa myndast í flutningum og staðan er almennt erfiðari eftir því sem fjarlægðin er meiri. Til að mynda hafa hertar sóttvarnaraðgerðir í Kína gert það að verkum að erfiðara gengur að koma afurðum á markað þar í landi. Svo ekki sé minnst á stríðið í Úkraínu en áhrifa þess gætir víða.
Af öðrum afurðaflokkum má nefna að veruleg aukning varð á útflutningi á frystum flökum, eða um 52% á föstu gengi. Á hinn bóginn er bæði samdráttur í útflutningsverðmæti ferskra afurða (10%) og rækju (39%). Þessa sundurliðun má sjá á myndinni hér fyrir.
Leiðrétting upp á tæpa 10 milljarða
Eins og áður segir er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 108 milljarða króna á fyrstu 4 mánuðum ársins. Það er talsvert minna en fyrstu tölur bentu til sem hljóðuðu upp á rúma 117 milljarða króna. Munurinn skýrist af því að útflutningur upp á 9,5 milljarða króna bættist við tölur fyrir mars. Það er útflutningur sem átti sér stað á árunum 2020 og 2021. Af ýmsum ástæðum geta orðið tafir á því að gögn berist til Hagstofunnar og er slíkt algengara fyrir uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir. Stærsti hluti leiðréttingarinnar er vegna útflutnings á makríl en einnig vegna síldar, loðnu, ufsa og karfa. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni mun hún leiðrétta mánaðartölurnar við næstu birtingu sem er í lok þessa mánaðar. Leiðréttingin þýðir jafnframt að útflutningsverðmæti á síðustu tveimur árum er meira en áður var talið. Verðmæti útfluttra sjávarafurða á árinu 2020 fer úr 270 milljörðum króna í tæpa 276 milljarða og fyrir árið 2021 úr tæpum 293 milljörðum króna í rúma 296 milljarða. Rýnt verður betur í tölurnar þegar uppfærsla Hagstofunnar liggur fyrir.