Af litlum neista verður oft mikið bál
5. júlí, 2021
Á fyrstu 5 mánuðum ársins hafa verið fluttar út loðnuafurðir fyrir um 16,4 milljarða króna. Hefur verðmæti loðnuafurða á þessum hluta árs sjaldan verið meira en nú á þessari öld. Öðru máli gegnir um útflutt magn, sem var rétt rúmlega 26 þúsund tonn á fyrstu 5 mánuðum ársins. Það er lítið magn miðað við það sem áður hefur verið, einna helst að undanskildum þeim árum sem loðnubrestur hefur orðið. Af þessu má ráða að meðalverð fyrir hvert útflutt kíló af loðnuafurðum, er mun hærra en það hefur áður verið.
Áhrifavaldurinn Ísland
Loðnan er sér á báti miðað við aðrar fisktegundir. Beint samband á milli magns og verðmæta er ekki til staðar og erfitt er að heimfæra eina loðnuvertíð til þess að spá fyrir um þá næstu. Loðnuveiðar hafa verið mjög sveiflukenndar á þessari öld og ráðstöfun á afla þar með mismunandi. Ótal þættir hafa áhrif á samsetningu og verð afurðanna. Þó ber hér helst að nefna heildaraflamark á loðnu hér á landi, sem segir ekki einungis til um það magn sem fyrirtækin hafa heimild til að veiða og hvernig aflanum verður þá líklega ráðstafað, heldur hefur það einnig mikil áhrif á heimsmarkaðsverð. Það er nú ekki oft sem litla Ísland er í slíkri áhrifastöðu, en ástæðan er einkum sú að á undanförnum árum hefur stærsti hluti heimsafla loðnu verið veiddur við Íslandsstrendur.
Ástandið á mörkuðum sérstakt
Ástandið á mörkuðum með loðnuafurðir nú er vissulega sérstakt, sem helgast af miklu leyti af loðnubresti undangengin tvö ár og þeim skorti sem hann leiddi til á framboði á loðnuafurðum. Jafnframt var sá loðnukvóti sem gefinn var út á yfirstandandi ári í lægri kantinum miðað við önnur ár. Þessir þættir hafa veruleg áhrif á afurðaverð, eins og áður segir. Sá kvóti sem íslensku fyrirtækin fengu var allur nýttur á mánaðartímabili frá miðjum febrúar. Því var mun meira af hrognafylltri loðnu sem þýðir, að öðru óbreyttu, verðmætari afli. Í öllu þessu ferli þarf hins vegar mikla útsjónarsemi hjá fyrirtækjunum sjálfum til þess að hámarka megi verðmætin. Uppsjávarfyrirtæki hafa jafnframt staðið í verulegum fjárfestingum á undanförnum árum. Mikil endurnýjun hefur orðið á uppsjávarflotanum og veruleg fjárfesting hefur orðið í hátæknibúnaði í fiskvinnslum. Þetta ætti einnig að skila sér í hærra afurðaverði sem og bættri nýtingu. Í raun er staðan svo að þrátt fyrir að talsvert af verðmætum eigi enn eftir að skila sér í útflutningstölurnar frá síðustu loðnuvertíð, þá eru útflutningsverðmætin nú þegar orðin meiri en þau hafa nokkru sinnum áður verið fyrir hvert kíló sem íslenski flotinn hefur dregið úr sjó.
Staðan á fyrstu 5 mánuðunum
Hér á eftir verður litið nánar yfir stöðuna í útflutningi á loðnuafurðum. Verður horft á tölurnar fyrir fyrstu 5 mánuði þessa árs og þær tölur bornar saman við heilsárstölur fyrri ára. Ber því að hafa í huga að enn á eftir að bætast í útflutt magn og verðmæti á næstu mánuðum sem loðnuvertíðin í ár skilaði.
Hlutdeild loðnuhrogna há
Hvernig aflanum er ráðstafað ræðst af mestu leyti af heildarloðnukvóta ársins. Þetta hefur svo áhrif á það verð sem fæst fyrir hvert útflutt kíló. Almennt hefur hlutdeild loðnuhrogna, sem eru verðmætustu afurðir loðnu, verið hærri þegar loðnukvótinn er minni. Á fyrstu 5 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuhrogna komið í 9,7 milljarða króna og þarf ekki mikið í viðbót til þess að fyrri met verði slegin í þeim efnum. Jafngilda þau um 60% af heildarútflutningsverðmætum loðnuafurða á tímabilinu og er ljóst að þetta háa hlutfall hrogna er meðal þeirra þátta sem skýra hátt meðalverð loðnuafurða í ár. Útflutningur á loðnu, heilfrystri á landi, hefur svo skilað um þriðjungi útflutningstekna það sem af er ári, eða um 5,2 milljörðum króna. Útflutningur á mjöli og lýsi er svo margfalt minni en önnur ár, að undanskyldum þeim árum sem loðnubrestur hefur orðið.
Asíumarkaður allsráðandi ...
Á fyrstu 5 mánuðum ársins hafa verið fluttar út loðnuafurðir til Asíu fyrir um 11,5 milljarða króna. Það gerir um 70% af útflutningsverðmætum loðnuafurða á tímabilinu. Hefur útflutningsverðmæti loðnuafurða til Asíu aldrei áður verið meira, þó að útflutningur á heilu ári sé hér til samanburðar.
... þar sem Japan er fremst í flokki
Stærsti markaður fyrir loðnuhrogn er Japan og kemur því ekki á óvart að þangað hefur verið mest flutt út af loðnuafurðum það sem af er ári. Þrátt fyrir að enn eigi eftir að bætast í útflutningstölurnar sem loðnuvertíðin skilaði, þá eru útflutningsverðmæti til Japans nú þegar orðin meiri en þau hafa náð á heilu ári. Það er þó ekki klippt og skorið hvert endanlegt viðskiptaland er með því að líta einungis á útflutningstölur og í þessu tilviki er líklegt að þær vanmeti hlutdeild Japansmarkaðar. Kína, sem kemur fast á hælana á Japan með innflutning á loðnuafurðum frá Íslandi, er til að mynda stór innflytjandi af hráefni til frekari vinnslu. Í gegnum tíðina hefur verið talsvert um að japanskir framleiðendur kaupi loðnu og flytji hana til Kína til frekari vinnslu til manneldis sem endar svo á markaði í Japan.
Loðnubrestur og fremur lítill kvóti í ár hefur dregið mjög úr framleiðslu á loðnumjöli. Þetta hefur gert það að verkum að útflutningur til Noregs, sem hefur verið stærsta viðskiptaland Íslands með loðnuafurðir á þessari öld, er vart svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Á myndinni má jafnframt sjá að lítið hefur verið flutt til annarra landa en þeirra 12 sem koma fram á myndinni. Hið sama var ekki uppi á teningnum árin fyrir loðnubrest, en þá var mikill útflutningur til dæmis til Danmerkur, Bretlands og Þýskalands, að ekki sé minnst á Rússland fyrir viðskiptabann. Þessi lönd teljast ekki til þeirra 12 stærstu í ár.
Loðnan er einn mikilvægasti fiskistofninn!
Á fyrstu 5 mánuðum ársins er hlutdeild loðnuafurða í útflutningsverðmætum sjávarafurða rúmlega 13%. Af vöruútflutningi alls er verðmæti afurðanna um 6%. Loðnan hefur jafnframt skilað næstmestum útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Af þessu má sjá hversu miklu hún skiptir í efnahagslegu tilliti. Áhrif loðnustofnsins í þessu samhengi eru þó margfalt meiri en hægt er að sjá í hagtölum einum og sér, enda er loðnan ein helsta fæða annarra mikilvægra fiskistofna. Ætti því að vera óumdeilt að þessi smái fiskur er einn mikilvægasti fiskistofn við Íslandsstrendur. Í öllu þessu eru það hafrannsóknir sem skipta sköpum, enda eru þær grunnforsenda verðmætasköpunar og sjálfbærar nýtingar.