Ágætis byrjun

6. febrúar, 2020

 Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 22,9 milljörðum króna í janúar samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun. Þetta er tæplega 3% aukning í krónum talið miðað við janúar í fyrra. Gengi krónunnar var aðeins lægra nú í janúar en í sama mánuði í fyrra og að teknu tillit til þeirra áhrifa er aukning á útflutningsverðmætum sjávarafurða á milli ára rétt rúmt 1%. Ekki liggur fyrir frekari sundurliðun á því hvernig útflutningsverðmæti eða magn á einstökum afurðum þróaðist í janúar, en tölur þess efnis verða birtar 28. febrúar.

... hægari í eldi
Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam útflutningsverðmæti „landbúnaðarafurða“ 2,9 milljörðum króna  í janúar. Er það 5% samdráttur miðað við janúar í fyrra. Á þessum tíma árs hefur útflutningsverðmæti á hefðbundnum landbúnaðarafurðum (fiskeldi undanskilið) verið um 600 til 700 milljónir króna síðustu ár. Verði útflutningur á þessum afurðum á svipuðum nótum eru horfur á að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið í kringum 2,3 milljarða króna  í janúar. Gæti því hafa reynst lítilsháttar samdráttur á milli ára í útflutningsverðmæti eldisafurða þennan fyrsta mánuð ársins, en í janúar í fyrra voru fluttar út eldisafurðir fyrir rúma 2,4 milljarða króna. Hvort sem það er samdráttur eða aukning í einstaka mánuði eru horfur á að útflutningsverðmæti eldisafurða muni aukast enn frekar á árinu. Hvernig þróunin var í janúar mun skýrast þegar Hagstofan birtir seinni tölurnar um útflutning í janúar, sem verður 28. febrúar eins og áður segir.

 

Deila frétt á facebook