Áhrif stríðs á utanríkisverslun
1. mars, 2022
Atburðir undanfarinna daga í Úkraínu hafa fært okkur heim sanninn um að fólk víða um heim býr hreint ekki við öryggi í daglegu lífi. Og árásir á fullvalda ríki ber að fordæma kröftuglega. Þótt viðskiptalegir hagsmunir Íslendinga í Úkraínu, séu hjóm eitt miðað við raunir og þjáningar fólks í stríði hafa atburðirnir óhjákvæmilega leitt til umræðna um þessa hagsmuni. Hér verður stuttlega gert grein fyrir þeim út frá sjónarhorni sjávarútvegs og eldis.
Frá því að Rússar lokuðu á viðskipti með sjávarafurðir frá Íslandi árið 2015 hefur Úkraína verið eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslendinga fyrir uppsjávarafurðir. Þangað er mikið flutt út af síld, makríl og loðnu. Opinberar tölur frá Hagstofunni um útflutning á sjávarafurðum til Úkraínu gefa til kynna að hann hafi verið í kringum 4 milljarða króna á undanförnum árum. Útflutningurinn er þó umtalsvert meiri en þessar tölur gefa til kynna og er ástæðan sú að afurðir hafa viðkomu í þriðja landi. Til að mynda fer stærsti hluti af þeim afurðum sem fluttar eru til Litháens áfram til Úkraínu og af myndinni hér fyrir neðan má sjá að það munar talsvert um þann útflutning.
Á myndinni hér fyrir ofan má jafnframt sjá að talsvert hefur verið flutt út af eldisafurðum beint til Úkraínu á undanförnum tveimur árum. Í fyrra nam hann 2,2 milljörðum króna, þar af lax fyrir rúman 1,8 milljarða króna og silungur fyrir 400 milljónir. Þannig að ætla má að viðskipti Úkraínu með íslenskar sjávar- og eldisafurðir hafi verið nær 9-11 milljörðum króna á undanförnum árum. Það kemur heim og saman við tölur frá Úkraínu, en samkvæmt þeim flytja þeir næst mest inn af fiskafurðum frá Íslandi en mest frá Noregi. Hlutdeild Íslands í heildarverðmætum innfluttra sjávar- og eldisafurða í fyrra nam 13,2%. Hlutur Noregs er stærstur, (35,2%), og Bandaríkin eru í þriðja sæti með (7,7%). Úkraína flytur inn um 80% af sjávar- og eldisafurðum sem eru á markaði þar í landi. Ljóst er því að viðskipti Úkraínu með íslenskar sjávarafurðir eru öllu meiri en ætla mætti ef miðað er við tölur Hagstofunnar.
Myndin hér fyrir neðan, sem er unnin upp úr gagnagrunni Sameinuðu þjóðanna um innflutning Úkraínu og Litháen á fiskafurðum frá Íslandi, styður ofangreint. Þess ber að halda til haga að tölurnar á þeirri mynd eru ekki á sama grunni og ómögulegt er að spegla inn- og útflutning á milli landa. Engu síður endurspegla tölurnar vel hversu stór hluti þess sem fer til Litháens endar í Úkraínu.