Árið byrjar af krafti

10. mars, 2023

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,5 milljörðum króna í febrúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðartölum sem Hagstofan birti í síðustu viku. Það er rúmlega 14% aukning í krónum talið miðað við febrúar í fyrra. Þar sem gengi krónunnar var tæplega 7% veikara í febrúar en í sama mánuði í fyrra er aukningin nokkuð minni í erlendri mynt, eða tæp 7%.

Í ofangreindri aukningu í febrúar munar mest um lýsi, en útflutningsverðmæti þess jókst um tæp 64% á milli ára á föstu gengi og var um 3,1 milljarður króna í febrúar, en það er tekið saman með fiskimjöli á myndinni hér fyrir neðan. Á hinn bóginn var samdráttur í útflutningsverðmæti fiskimjöls á sama tíma, eða um tæp 5% á föstu gengi. Engu að síður var fiskimjöl fyrirferðarmikið í útflutningstölum febrúarmánaðar, en verðmæti þess námu um 4,3 milljörðum króna.

Af öðrum afurðarflokkum má nefna að útflutningsverðmæti rækju jókst um 64% á milli ára á föstu gengi. Á sama kvarða var 7% samdráttur í útflutningsverðmætum saltaðra og þurrkaðra afurða annars vegar og ferskra hins vegar. Þá jafnframt jókst útflutningsverðmæti annarra sjávarafurða um 30% milli ára. Þar sem um fyrstu bráðabirgðatölur er að ræða fyrir febrúar, eru útflutningsverðmæti ekki birt niður á tegundir en þær tölur verða birtar í lok þessa mánaðar.

Á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 52 milljarða króna. Um tæpa 9% aukningu er að ræða frá sama tímabili í fyrra í krónum talið, en ef leiðrétt er fyrir gengi er aukningin tæp 3%. Útflutningsverðmæti allra afurðaflokka hefur aukist á tímabilinu að undanskildu fiskimjöli og lýsi. Samanlagt hefur mjöl og lýsi dregist saman um tæp 16% á milli tímabila, leiðrétt fyrir gengi. Á sama kvarða er aukning í söltuðum og þurrkuðum afurðum (2%), ferskum afurðum (3%), frystum heilum fiski (5%), frystum flökum (7%), frystri rækju (13%) og öðrum sjávarafurðum (58%).

Vafalaust setur loðnan svip sinn á útflutningstölurnar í ár og breytingu í einstaka vinnsluflokkum milli ára. Til að mynda koma loðnuhrogn við sögu í flokknum aðrar sjávarafurðir. Eins og áður segir liggur sundurliðun niður á tegundir ekki fyrir í útflutningstölum febrúarmánaðar, en loðnuhrogn frá síðustu vertíð voru talsvert fyrirferðarmikil í útflutningi nú í janúar. Jafnframt má telja víst að samdráttur í mjöli og lýsi á milli ára tengist loðnunni enda hófust veiðar mun fyrr á síðasta fiskveiðiári en á yfirstandandi ári. Það má svo aftur rekja til þess að strax í upphafi loðnuvertíðarinnar í fyrra lá fyrir að kvótinn yrði stór, sem skiptir sköpum fyrir skipulag veiða og þá hvernig aflanum verður líklega ráðstafað.

 

 

Deila frétt á facebook