Aukning í útflutningsverðmætum skrifast á loðnu

2. nóvember, 2021

Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 213 milljarða króna. Það er rúmlega 8% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Gengi krónunnar hefur að jafnaði verið um 2% sterkara fyrstu 9 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og er aukningin þar með aðeins meiri í erlendri mynt, eða 10%.

Aukningu í útflutningsverðmætum sjávarafurða má að langstærstum hluta rekja til loðnu, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Á fyrstu 9 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í tæplega 21 milljarð króna. Á sama tímabili í fyrra var verðmæti þeirra rétt um 2 milljarðar króna, en þar var um birgðasölu að ræða enda hefur loðnubrestur verið undangengin tvö ár. Ef verðmæti loðnuafurða er undanskilið í tölum um útflutning, stendur útflutningsverðmæti sjávarafurða nánast í stað á milli ára. Þar innan eru þó talsverðar breytingar. Þannig er útflutningsverðmæti botnfiskafurða ríflega 6% meira í ár en á sama tímabili í fyrra. Aukninguna má rekja til helstu tegunda botnfiska, þorsk, ýsu, ufsa og karfa. Á móti vegur verulegur samdráttur í útflutningsverðmæti annarra uppsjávarfiska en loðnu, það er síld, kolmunna og makríl, eða sem nemur rúmum 32%. Útflutningsverðmæti þessara þriggja tegunda nemur samanlagt tæpum 21 milljarði króna á fyrstu 9 mánuðum ársins, sem er á pari við útflutningsverðmæti loðnu.

Útflutningsverðmæti loðnuhrogna aldrei meira
Eins og áður segir er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í tæpan 21 milljarð króna á fyrstu 9 mánuðum ársins. Þar af nemur útflutningsverðmæti loðnuhrogna 12,3 milljörðum og hefur aldrei verið meira. Hrognin nema 59% af heildarútflutningsverðmæti loðnuafurða á tímabilinu. Útflutningur á heilfrystri loðnu í landi, hefur svo skilað um þriðjungi útflutningstekna það sem af er ári, eða um 6,6 milljörðum króna sem einnig er met. Útflutningsverðmæti af sjófrystri loðnu nemur svo 1 milljarði króna og fiskimjöli rétt rúmlega 0,8 milljörðum.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þessa skiptingu, en þar eru tölur fyrri ára heilsárs tölur. Eflaust á enn eftir að mjatlast eitthvað til viðbótar í útflutningstölurnar frá síðustu loðnuvertíð, en ætla má að langstærsti hlutinn hafi skilað sér. Þá sést einnig að samsetning loðnuafurða í ár eftir vinnslu er allt önnur en fyrri ár, þar sem meira var nýtt til manneldis í ár og minna fór í bræðslu. Línan á myndinni sýnir útflutning loðnuafurða í tonnum talið og séu þau sett í samhengi við verðmætin, blasir við að meðalverð fyrir hvert útflutt kíló er mun hærra en það hefur áður verið. Hið sama er upp á teningnum ef útflutningsverðmæti eru borin saman við þann 70,7 þúsund tonna loðnukvóta sem íslensku uppsjávarfyrirtækin fengu úthlutað.  

Asíumarkaður allsráðandi
Á fyrstu 9 mánuðum ársins hafa verið fluttar út loðnuafurðir til Asíu fyrir um 13,8 milljarða króna, sem er met. Það er um 66% af útflutningsverðmætum loðnuafurða á tímabilinu. Þar af fóru loðnuafurðir til Kína fyrir 4,3 milljarða króna og til Japans fyrir 4,2 milljarða. Önnur stór Asíulönd í þessu sambandi eru Taíland (1,7 milljarðar), Suður Kórea (1,3 milljarðar) og Taívan (1,2 milljarðar). Sjá má að stærsta viðskiptaland Íslendinga með loðnuafurðir, Noregur, kemst varla á blað í ár. Það kemur heim og saman við hversu lítið fór í bræðslu en Norðmenn eru stærstu kaupendur Íslendinga á fiskimjöli og lýsi enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims.

Óvissuferð framundan

Íslensk fiskiskip hafa heimild til þess að veiða 662 þúsund tonn af loðnu á yfirstandi fiskveiðiári. Svo stór hefur loðnukvótinn ekki verið í tvo áratugi. Eins og áður segir var loðnukvótinn á síðustu verðtíð tæp 71 þúsund tonn. Hversu stór loðnukvótinn er hefur áhrif á hvernig aflanum er ráðstafað og þar með samsetningu afurða í útflutningi. Almennt hefur hlutdeild loðnuhrogna, sem eru verðmætustu afurðir loðnu, verið meiri eftir því sem kvótinn er minni. Það þýðir, að öðru óbreyttu, hærra verð fyrir hvert útflutt kíló og hvert kíló sem dregið er úr sjó. Að sama skapi hefur almennt farið hlutfallslega meira í bræðslu þegar kvótinn er stærri, og því verður meiri útflutningur á fiskimjöli og lýsi. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að einungis 25% verður eftir til útflutnings af þeim loðnuafla sem fer í bræðslu, það er 18% fiskimjöl og 7% lýsi.

Ofangreind lýsing á stærð loðnukvótans og ráðstöfun aflans kemur ágætlega fram á myndinni hér fyrir neðan. Hér ber að halda til haga að ekki er tekið tillit til birgðasölu árin 2019 og 2020 þótt verðmæti þeirra megi vissulega rekja til loðnuvertíðarinnar á árinu 2018 og jafnvel 2017. Ástæðan er sú að loðnubrestur hafði mikil áhrif á það verð sem fékkst fyrir afurðir á þeim tíma og þar fyrir utan er alltaf eitthvað um sölu á birgðum á ári hverju. Þessi mynd endurspeglar þó ágætlega það sem hér hefur verið lýst, það er neikvætt samband magns og meðalverðs sem að mestu leyti má rekja til ráðstöfunar á afla. Hér ber jafnframt að geta að ekki er tekið tillit til þess loðnuafla sem erlend skip landa hér á landi. Sé það gert teiknast þó upp nákvæmlega sama mynd, þó meðalverðið verður aðeins lægra þar sem aflinn verður aðeins meiri.

Af ofangreindu er ljóst að ómögulegt er að nota síðustu loðnuvertíð til þess að spá fyrir um þá næstu. Þar að auki hefur ástandið á mörkuðum verið æði sérstakt að undanförnu, sem má fyrst og fremst rekja til loðnubrests undangengin tvö ár og skorts á loðnuafurðum af þeim sökum. Jafnframt var loðnukvótinn á síðasta fiskveiðiári í lægri kantinum miðað við fyrri ár. Þessir þættir hafa því haft veruleg áhrif á verð sem fékkst fyrir afurðir frá  síðustu vertíð. Sú loðnuvertíð sem er framundan er mikil óvissuferð. Óvissuþættirnir eru margir, eins og veiðigeta flotans, veiðanleiki loðnunnar, gæftir og að lokum vinnslugeta verksmiðja. Í öllu þessu ferli þarf mikla útsjónarsemi hjá fyrirtækjunum sjálfum til þess að hámarka megi verðmætin. Sú mikla fjárfesting sem fyrirtækin hafa ráðist í á undanförnum árum, bæði í skipum og í hátæknivinnslum, mun þar vafalaust koma sér vel. Að endingu má geta þess að loðnunni hefur verið bætt við á mælaborð Radarsins, sem var orðið löngu tímabært enda er hún ein mikilvægasta fisktegundin við Íslandsstrendur.

 

Deila frétt á facebook