Dágóð aukning í útflutningstekjum á öðrum ársfjórðungi

30. ágúst, 2021

Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru 287 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi. Það er um 32% aukning í krónum talið frá sama tímabili í fyrra. Í erlendri mynt er aukningin nokkuð meiri, eða um 38%, þar sem gengi krónunnar var að jafnaði um 5% hærra nú á öðrum fjórðungi en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir aukninguna eru útflutningstekjur þjóðarbúsins á fjórðungnum mun lægri en fyrir COVID-19, eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Það má fyrst og fremst rekja til ferðaþjónustunnar, sem vegna áhrifa af faraldrinum á langt í land með að komast í fyrra horf. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í síðustu viku.


Loðna spilar stóra rullu
Séu tekjur af erlendum ferðamönnum teknar út fyrir sviga teiknast nokkur önnur og öllu jákvæðari mynd upp af þróuninni. Á þann skala námu tekjur þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuútflutningi 257 milljörðum króna og hafa þær aldrei verið meiri á öðrum ársfjórðungi á föstu gengi, eins og sjá má á myndinni hér á undan. Í verðmætum talið er aukningin um 60 milljarðar króna á milli ára, reiknað á föstu gengi. Stærsti einstaki liðurinn í þessari aukningu er loðna en tekjur af henni, einni og sér, námu 16,1 milljarði króna á öðrum ársfjórðungi. Einhver sala á eldri loðnubirgðum kemur fram í útflutningi á loðnu á öðrum ársfjórðungi í fyrra, eða sem nemur 0,9 milljörðum króna. Útflutningstekjur af loðnu eru því 15,2 milljörðum krónum meiri í ár en á sama tíma í fyrra á föstu gengi, og fjórðungur af þessari 60 milljarða króna aukningu. Nánari umfjöllun um loðnu má sjá í grein sem birt var á Radarnum í sumar. Útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild var 82,5 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi og jókst um 38% á föstu gengi á milli ára.

Útflutningstekjur af eldisafurðum voru 8 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi, sem er um 58% aukning á föstu gengi frá sama tíma í fyrra. Í verðmætum talið er aukningin 2,9 milljarðar króna á föstu gengi. Hana má alfarið rekja til 82% aukningar á útflutningstekjum af eldislaxi, en þær námu 6,8 milljörðum króna nú á öðrum fjórðungi samanborið við rúma 3,7 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Af öðrum stórum liðum má nefna 22% aukningu á útflutningstekjum af áli og álafurðum á föstu gengi. Í verðmætum talið gerir það 10,6 milljarða króna á föstu gengi. Eins var dágóð aukning í útflutningstekjum af annars konar þjónustuútflutningi, eins og tekjum af annarri viðskiptaþjónustu sem jukust um 6,1 milljarð króna á föstu gengi og tekjum vegna notkunar hugverka sem jukust um 5,3 milljarða. Sú aukning sem var af tekjum vegna notkunar hugverka skýrist af vaxandi tekjum í lyfjaiðnaði.


Sjávar- og eldisafurðir um þriðjungur tekna
Á fyrri helmingi ársins voru útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta rúmlega 513 milljarðar króna. Það er rúmlega 5% aukning á föstu gengi. Þar munar einna mest um 15% aukningu á útflutningsverðmætum sjávarafurða á tímabilinu, á föstu gengi. Hana má að langstærstum hluta rekja loðnuvertíðar. Á fyrstu 6 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í 18,5 milljarða króna og hefur það sjaldan verið meira á þessum árshluta og nú á þessari öld, eins og sjá á myndinni hér á undan. Eins munar verulega um þá aukningu sem orðið hefur á útflutningi á eldisafurðum á tímabilinu, einkum á eldislaxi. Námu útflutningstekjur af eldisafurðum 18,8 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins, sem er 38% aukning á milli ára á föstu gengi. Þar af nam útflutningsverðmæti eldislax 15,6 milljörðum króna, sem er 51% aukning á milli ára á sama kvarða. Samanlagt námu útflutningstekjur af sjávar- og eldisafurðum 167,5 milljörðum króna á fyrri árshelmingi, sem er um 33% af útflutningstekjum þjóðarbúsins á tímabilinu.

 

Deila frétt á facebook