Dropi í stóru hafi
9. júlí, 2021
Margir gætu haldið, miðað við fregnir af stórauknum umsvifum í fiskeldi hér á landi, að Ísland sé orðið umsvifamikið í fiskeldi á heimsvísu. Það er öðru nær og er nærtækt að nefna Færeyjar og Noreg til samanburðar. Þrátt fyrir að fiskeldi á Íslandi hafi stóreflst undanfarin ár, einkum laxeldi, þá er framleiðslan mun minni en í Færeyjum og dropi í hafi miðað við Noreg. Á árinu 2020, sem er stærsta ár Íslandsögunnar í framleiðslu og útflutningi á eldislaxi, voru flutt út rúmlega 24 þúsund tonn af eldislaxi. Sama ár fluttu frændur okkar í Færeyjum út rúmlega 59 þúsund tonn af laxaafurðum, eða ríflega tvöfalt meira en Íslendingar.
Norðmenn eru svo sér á báti, enda heimsmeistarar í framleiðslu á eldislaxi. Útflutningur á eldislaxi frá Noregi nam ríflega 1,1 milljón tonna á árinu, sem jafnframt var metár í útfluttu magni. Andvirði útflutnings Norðmanna á eldislaxi var yfir 1.000 milljarðar íslenskra króna árið 2020, sem er meira en samanlagðar tekjur Íslendinga af vöru- og þjónustuútflutningi í fyrra. Árið 2020 er þó eflaust ekki sérlega gott dæmi, þar sem áhrif COVID-19 og tilheyrandi sóttvarnaraðgerða voru mikil á ferðaþjónustuna og þar með þjónustuútflutning. Því er betra að líta til áranna þar á undan, en þá jafngilda þessar útflutningstekjur Norðmanna af eldislaxi, einum og sér, að jafnaði um 75% af tekjum Íslendinga af vöru- og þjónustuútflutningi samanlagt.
Vægi margfalt minna en í Færeyjum
Hagkerfi landanna þriggja eru ólík að stærð og gerð. Þau eiga það hins vegar sammerkt að eiga nokkuð mikið undir fiskútflutningi, en vissulega mismikið. Færeyingar eru þar efstir á blaði, en vöruútflutningur þjóðar getur varla verið einhæfari, sem að stærstum hluta rekja til smæðar færeyska hagkerfisins. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá hefur útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða verið í kringum 95% af verðmæti alls vöruútflutnings þar í landi. Fiskeldið hefur vissulega gert stöðuna betri og dregið úr áhættu, enda er eldið ekki eins háð duttlungum náttúrunnar og villtir fiskistofnar og því hægt að hafa betri stjórn á magni. Þar má sjá að útflutningsverðmæti eldislax hefur verið um 41-47% af verðmæti alls vöruútflutnings eyjanna á undanförnum árum.
Meiri fjölbreytni gætir í útflutningstölum frá Íslandi, en þar hefur útflutningsverðmæti sjávar- og eldisafurða verið um 42-48% af verðmæti vöruútflutnings alls. Þar af hefur eldislax farið hæst í rúmlega 3%, sem var í fyrra. Hlutdeild sjávar- og eldisafurða er svo lægst í Noregi enda er útflutningur á olíu afar umfangsmikill. Hlutdeild sjávar- og eldisafurða hefur þó farið hækkandi, sem má fyrst og fremst rekja til laxeldis. Útflutningsverðmæti eldislax hefur að jafnaði verið um 8% af verðmæti vöruútflutnings alls á undanförnum árum en verðmæti sjávar- og annarra eldisafurða rúmlega 3%. Vitaskuld er hlutdeildin einnig háð því hvernig gengur á öðrum sviðum útflutnings, eins og til dæmis í olíuiðnaðinum í Noregi og áliðnaðinum á Ísland. Þegar öllu er á botninn hvolft ættu síðustu ár að endurspegla vel hversu þarft það er að hafa traustar stoðir undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins, og þeim mun fjölbreyttari því betra. Sökum smæðar hagkerfisins á Íslandi, eyju langt norður í Atlantshafi, er erfitt að ná yfirburðastöðu á mörgum sviðum. Íslendingar hafa fyrir löngu sýnt að þegar villtur fiskur er annars vegar, þá erum við á heimsvísu, fremst á meðal jafningja. Reynsla og þekking sem þar er mun vonandi koma til góða í íslensku fiskeldi þegar fram líða stundir.