Ein stærsta uppspretta gjaldeyris

27. febrúar, 2020

Sjávarútvegur hefur gegnt lykilhlutverki í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins um langan aldur. Hlutur sjávarafurða í verðmæti vöruútflutnings í fyrra nam tæpu 41% og var sjávarútvegur stærsta einstaka útflutningsgreinin. Séu þjónustuviðskipti einnig lögð til grundvallar var hlutur sjávarútvegs rúm 19%. Á þann kvarða var sjávarútvegur önnur stærsta útflutningsgreinin, á eftir ferðaþjónustu. 
 

Ekki eru ýkja mörg ár síðan sjávarútvegur var langstærsta uppspretta gjaldeyris. Miklar breytingar hafa orðið í þeim efnum á þessari öld með stórauknum umsvifum annarra útflutningsgreina. Ber hér helst að nefna aukin umsvif stóriðju,  sér í lagi  á fyrsta áratug aldarinnar, og þann ævintýralega vöxt sem varð á fjölda ferðamanna á síðasta áratug. Sami vöxtur er ekki mögulegur að magni til fyrir sjávarafurðir. Að minnsta kosti ekki á svo skömmum tíma, enda er takmarkað hversu mikill vöxtur getur orðið á grundvelli sjálfbærrar nýtingar á fiskistofnum. Það jafngildir þó ekki að stöðnun sé í greininni eða að ekki sé hægt að ná fram auknum útflutningstekjum með aukinni verðmætasköpun, þvert á móti. Þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki.

Nánari umfjöllun um ofangreindar tölur má sjá á Radarnum, þar sem tölur um gjaldeyrisöflun hafa verið uppfærðar.

 

Deila frétt á facebook