Eldi: Útflutningur í ágúst í takti við bráðabirgðatölur

1. október, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rétt rúmlega 1,5 milljarði króna í ágúst samanborið við tæplega 1,7 milljarða í ágúst í fyrra. Það er rúmlega 10% samdráttur í krónum talið á milli ára. Á sama tímabili hefur gengi krónunnar lækkað um ríflega 13% og er samdrátturinn því ívið meiri mældur í erlendri mynt, eða rúm 22%. Þetta er í takti við það sem búast mátti við og fjallað var um í frétt á Radarnum í byrjun september. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær.

Samdráttur aðeins tímabundinn
Alls nam útflutningsverðmæti eldislax 880 milljónum króna í ágúst samanborið við 1.154 milljónir í ágúst í fyrra. Það er samdráttur upp á rúm 16% í krónum talið en um 28% í erlendri mynt. Þennan samdrátt má fyrst og fremst rekja til þess að vinnslustöðvun hefur verið hjá hluta af eldisfyrirtækjunum í sumar, en vinnslan fer aftur á fullt skrið nú í haust sem mun vafalaust koma fram í útflutningstölum á næstu mánuðum. Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, nam 612 milljónum króna í ágúst samanborið við 549 milljónir í sama mánuði í fyrra. Það er rúmlega 11% aukning í krónum talið en rúmlega 3% samdráttur í erlendri mynt.

Ein fárra útflutningsgreina í vexti
Á fyrstu 8 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 16,5 milljarða króna samanborið við 15,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rúmlega 7% aukning í krónum talið á milli ára og hefur útflutningsverðmæti eldisafurða á þann kvarða aldrei verið meira á fyrstu 8 mánuðunum. Á hinn bóginn mælist samdráttur upp á tæp 2% í erlendri mynt, en gengi krónunnar hefur að jafnaði verið ríflega 9% lægra á fyrstu 8 mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra sem vissulega setur sitt mark á útflutningsverðmæti í krónum talið. Samdráttinn má einkum rekja til lækkunar á afurðaverði erlendis sem er ein af afleiðingum COVID-19, en framleiðslan, það er útflutt magn, hefur aukist á milli ára. Er fiskeldi í raun ein fárra útflutningsgreina sem er í vexti um þessar mundir og skilar meiri verðmætum í krónum talið en í fyrra. Í heild hefur verðmæti vöruútflutnings dregist saman um rúm 10% í krónum talið á milli ára en um tæp 18% í erlendri mynt. Samdrátturinn er nokkuð minni ef einskiptisliðir, á borð við skip og flugvélar, eru undanskildir, eða tæp 13% á milli ára í erlendri mynt. Samdráttinn má bæði rekja til þess að almennt hefur lækkun orðið á verði útfluttra afurða í erlendri mynt og samdráttur verið í útfluttu magni. Er því óhætt að segja að þessi aukning sem orðið hefur í umsvifum fiskeldisfyrirtækja, sem horfur eru á að framhald verði á, sé afar jákvæð fyrir útflutningsflóru landsins. Og ekki síður fyrir nærumhverfi fyrirtækjanna eins og fjallað er um í nýrri grein á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

 

Deila frétt á facebook