Eldisafurðir: Útflutningur aldrei verið meiri

12. ágúst, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nemur rúmum 13,5 milljörðum króna á fyrstu 6 mánuðum ársins. Hefur það aldrei verið meira á fyrri árshelmingi, hvort sem talið er í krónum eða erlendri mynt. Á sama tímabili í fyrra nam útflutningsverðmæti eldisafurða 12,1 milljarði króna og hefur það því aukist í ár um rúm 11% í krónum talið. Lækkun á gengi krónunnar styður vitaskuld við afkomu greinarinnar í krónum talið og er aukningin því ívið minni mæld í erlendri mynt, eða 4%. Það má þó teljast dágóð aukning og afar kærkomin í því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðarbúskapnum. Er fiskeldi í raun ein af fáum útflutningsgreinum hér á landi sem er í vexti um þessar mundir og hefur skilað meiri útflutningstekjum til þjóðarbúsins í ár en í fyrra.

Augljós áhrif COVID-19
Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á starfsemi fiskeldisfyrirtækja hér á landi, líkt og á flest allar atvinnugreinar. Þessi áhrif koma bersýnilega fram þegar litið er á þróun í útflutningi á fyrsta og svo öðrum ársfjórðungi, en áhrifa COVID-19 byrjaði að gæta um miðjan mars. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan jókst útflutningsverðmæti eldisafurða nokkuð myndarlega á fyrsta fjórðungi á milli ára, sem að stærstum hluta má rekja til aukningar í útfluttu magni. Auk þess var hagstæð þróun á afurðaverði og lækkun á gengi krónunnar studdi við útflutningstekjur greinarinnar. Á hinn bóginn dróst útflutningsverðmæti saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi á sama tíma og útflutt magn stóð nánast í stað. Þann samdrátt má einkum rekja til verulegrar lækkunar á afurðaverði en gengislækkun krónunnar vóg þó aðeins upp á móti.
 

Sviptingar á milli mánaða
Ofangreindur samdráttur í útflutningsverðmæti eldisafurða á öðrum ársfjórðungi á sér stað í apríl og maí en á móti vegur veruleg aukning í júní. Endurspeglar þessi þróun ágætlega ástandið á mörkuðum á hverjum tíma sem var hvað verst í apríl og maí, en tók svo að lagast í júní þó langt hafi verið í land að markaðir næðu fyrri styrk. Þó er óvarlegt að álykta of mikið um markaðina, út frá einum mánuði, á meðan heimsfaraldurinn ríður húsum og sýnir ekki á sér farasnið.

Vísbendingar eru um að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi svo dregist saman á milli ára í júlí. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum um vöruskipti í júlí sem Hagstofan birti fyrr í þessum mánuði, en þær tölur eru einungis birtar fyrir yfirflokka og flokkast eldisafurðir þar undir landbúnaðarafurðir. Samkvæmt þeim tölum nam útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða 1,7 milljarði króna í júlí, sem er rúmlega 9% samdráttur á milli ára í krónum talið en tæp 19% í erlendri mynt. Eldisafurðir eru langstærsti liðurinn í útflutningi á landsbúnaðarafurðum, eins og bersýnilega má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Frekari sundurliðun Hagstofunnar á vöruskiptum er að vænta í lok ágúst og þá kemur í ljós hver þróunin var.

 

Deila frétt á facebook