Ferskar afurðir fyrirferðamiklar í upphafi árs

13. apríl, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 26,9 milljörðum króna í mars samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í gærmorgun. Það er rúmlega 4% aukning í krónum talið miðað við mars í fyrra, en rúm 2% mælt í erlendri mynt. Þetta er nokkuð stór mánuður miðað við sama mánuð undanfarinn áratug, sér í lagi í útflutningi á ferskum afurðum sem hafa í raun aldrei verið eins fyrirferðamiklar í marsmánuði og nú. Eins eru góðar líkur á að loðna sé byrjuð að sýna sig í útflutningstölum, en það kemur í ljós í lok apríl þegar Hagstofan birtir frekari sundurliðun á tölunum.

Alls voru fluttar út ferskar afurðir fyrir um 7,6 milljarða króna í mars, sem er um 46% aukning á föstu gengi á milli ára. Hefur útflutningsverðmæti ferskra afurða í marsmánuði aldrei verið meiri en nú og voru þær alls um 28% af útflutningsverðmætum sjávarafurða í heild í mánuðinum. Vafalaust hefur COVID-19 haft sitt að segja um að aukningin á milli ára er svona mikil, en áhrifa faraldursins byrjaði að gæta um miðjan mars í fyrra. Við upphaf faraldursins voru áhrifin sérlega mikil á útflutning á ferskum afurðum, sér í lagi þær sem fluttar eru með flugi. Einnig var nokkuð myndarleg aukning í flokknum „aðrar sjávarafurðir“ (40% á föstu gengi) og frystum heilum fiski (14%). Líklegt er að loðna hafi haft sitt að segja með þá aukningu, því loðnuhrogn falla undir „aðrar sjávarafurðir“ og heilfryst loðna undir frystan heilan fisk.

Útflutningsverðmæti lýsis í mars stóð nánast í stað á milli ára en útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka, sem hafa ekki verið taldir upp, dróst saman á milli ára. Mestur varð samdrátturinn í afurðaflokknum saltaðar og þurrkaðar afurðir, en útflutningsverðmæti þeirra í mars var um 31% minna en í sama mánuði í fyrra á föstu gengi. Þó var útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nú í mars svipað og það hefur að jafnaði verið í marsmánuði undanfarinn áratug. Aðalástæða þessa mikla samdráttar núna er að mars í fyrra var óvenjustór. Útflutningsverðmæti frystra flaka dróst svo saman um tæp 11% á milli ára á föstu gengi, fiskimjöls um 12% og rækju um 30%.
 

Ágætis byrjun þrátt fyrir samdrátt
Sé tekið mið af fyrsta ársfjórðungi er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 65 milljarða króna. Í krónum talið er um tæplega 3% aukningu að ræða frá sama tímabili í fyrra, en á föstu gengi mælist hins vegar samdráttur upp á rúm 4%. Svipað er uppi á teningnum í mars, hvað einstaka afurðaflokka varðar. Verðmæti útfluttra ferskra afurða eykst mest á milli ára á fyrsta ársfjórðungi, um 20% á föstu gengi. Voru ferskar afurðir um 31% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild, en hlutfallið hefur aldrei verið svo hátt á fyrsta ársfjórðungi. Mestu munar um 21% samdrátt í útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða á tímabilinu og um 14% samdrátt í frystum flökum. Sjávarafurðir voru alls 40% af verðmæti vöruútflutnings á fjórðungnum, sem er svipað og það hefur verið að jafnaði undanfarinn áratug. 

 

 

Deila frétt á facebook