Fiskeldi: Áfram aukning

7. maí, 2021

Útflutningsverðmæti eldisafurða námu rúmlega 2,1 milljarði króna í apríl samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum. Það er fremur lítill mánuður miðað við það sem verið hefur upp á teningnum undanfarna mánuði, en eðlilegt er að sveiflur séu á milli mánaða. Engu að síður er um dágóða aukningu að ræða frá apríl í fyrra, eða sem nemur um 28% í krónum talið. Gengi krónunnar var að jafnaði um 5% sterkara í apríl en í sama mánuði í fyrra og er aukningin þar með nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 34%. Aukningin litast vafalaust af áhrifum COVID-19 á útflutning á eldisafurðum í fyrra, enda var þá mikil ringulreið á mörkuðum og verulegt rask á flutningum á milli landa.

Þess má geta að útflutningsverðmæti eldisafurða í mars reyndust minni en fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar höfðu gefið til kynna. Í fyrstu var talið að útflutningsverðmætin hefðu verið um 5,5 milljarðar króna í mánuðinum en nú er komið í ljós að það var rúmir 4,8 milljarðar króna. Engu að síður er mars síðastliðinn stærsti mánuður frá upphafi hvað verðmæti útfluttra eldisafurða áhrærir.


Stærsti ársþriðjungur frá upphafi
Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 13 milljarða króna, sem er rúmlega 26% aukning, á föstu gengi, miðað við sama tímabil í fyrra. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, er um að ræða stærsta ársþriðjung frá upphafi og var útflutningsverðmæti eldisafurða um 6% af heildarverðmæti vöruútflutnings á tímabilinu. Er því óhætt að segja að árið fari myndarlega af stað í framleiðslu og útflutningi á eldisafurðum.

 

Deila frétt á facebook