Fiskeldi: Augljós áhrif á vinnumarkað
14. júní, 2024
Sú aukning sem orðið hefur á umsvifum í fiskeldi hér á landi má glöggt sjá í tölum á vinnumarkaði. Aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað við fiskeldi hér á landi en nú um stundir. Að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti nýverið um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, sem er stærsti hluti atvinnutekna launafólks. Samhliða birtir Hagstofan tölur um fjölda einstaklinga sem fær þær greiddar.
Á fyrstu 4 mánuðum ársins fengu að jafnaði rúmlega 820 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum. Frá sama tímabili árið 2010 hefur fjöldinn fimmfaldast. Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, þ.e. samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu alls 3.200 milljónum króna á fyrstu 4 mánuðum ársins, sem er ríflega níu sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2010.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróunina á fjölda launafólks og atvinnutekna í fiskeldi frá árinu 2010. Þess má geta að það er í raun sama hvaða upphafsári tekið er mið af, hlutfallsleg aukning launafólks eða atvinnutekna er iðulega mest í fiskeldi af öllum atvinnugreinum hér á landi.
Fiskeldi skapar verðmæt störf
Þar sem Hagstofan birtir hvort tveggja tölur um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur og fjölda einstaklinga sem fær þær greiddar, liggur beint við að skoða hvernig atvinnutekjur á mann hafa þróast í fiskeldi í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Hér ber vissulega að halda til haga að hér er um grófa nálgun að ræða þar sem ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda. Hvað sem því líður er áhugavert að sjá að atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa verið nokkuð hærri en að jafnaði í öllum atvinnugreinum samanlagt frá árinu 2014. Fyrir þann tíma var þessu öfugt farið. Þar hefur munurinn jafnframt verið ívið meiri á allra síðustu árum en hann var fyrst eftir að atvinnutekjur i fiskeldi tóku fram úr. Á fyrstu 4 mánuðum ársins voru atvinnutekjur á mann um 85% hærri að raunvirði en á sama tímabili árið 2010. Það er mesta aukning atvinnutekna á mann af öllum atvinnugreinum hér á landi. Að jafnaði hafa atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt hækkað um 29% að raunvirði á sama tíma.
Áhugavert er að líta á fleiri atvinnugreinar í þessu samhengi og sjá hvernig fiskeldi kemur út í þeim samanburði. Atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt voru um 776 þúsund krónur á mánuði á fyrstu 4 mánuðum ársins. Að vanda voru þær hæstar í fiskveiðum en lægstar í landbúnaði og skógrækt. Atvinnutekjur á mann í fiskeldi voru 974 þúsund krónur á mánuði og er greinin þar með í fjórða sæti yfir hæstu atvinnutekjur á mann hér á landi.
Sterk stoð til framtíðar
Eins og áður segir er hér um samanburð að ræða á launagreiðslum þar sem ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda, en hlutastörf eru t.d. misalgeng á milli atvinnugreina. Eins er menntunarstig á milli atvinnugreina mishátt, sem einnig hefur áhrif á launagreiðslur. Þessar tölur gefa þó ákveðna vísbendingu um hvernig fiskeldi kemur út í samanburði við aðrar atvinnugreinar hér á landi þegar kemur að atvinnutekjum. Það skiptir máli og þá sér í lagi þegar hugað er að þeim sóknarfærum sem Íslendingar standa frammi fyrir í fiskeldi og framtíðarstefnu Íslendinga í atvinnumálum.
Í þessu samhengi er ágætt að hafa í huga að laun hafa ekki einungis áhrif á hag launafólks, heldur einnig á t.d. ríkissjóð og sveitarfélög. Það vill oft gleymast í umræðunni. Er hér nærtækt að nefna tryggingargjald sem leggst ofan á launagreiðslur, en það er stór tekjustofn fyrir ríkissjóð. Tekjuskattur og útsvar starfsmanna skiptir einnig máli í þessu samhengi. Þessir tekjustofnar ríkissjóðs og sveitarfélaga grundvallast á þeim verðmætum sem af starfsemi fiskeldisfyrirtækja hlýst með beinum hætti. Eftir því sem verðmætasköpun verður meiri og laun hærri, þá hefur það ekki einungis jákvæð áhrif á hag launafólks, heldur einnig á ríkisjóð og sveitarfélög í gegnum tryggingargjald og staðgreiðslu og útsvar starfsmanna.
Það má heldur ekki gleyma þeirri staðreynd að fiskeldi er grunnatvinnuvegur, en það þýðir að greinin hefur mun meiri efnahagslega þýðingu en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig eru aðrir atvinnuvegir háðir starfsemi fiskeldisfyrirtækja, en þau eru ekki eins háð starfsemi annarra atvinnuvega. Þessi afleiddu eða óbeinu áhrif greinarinnar hafa komið vel fram í ákveðnum landshlutum þar sem fiskeldi er hvað umsvifamest, eins og á Vestfjörðum og á Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf orðið fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst í fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa starfseminnar sjálfrar og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar.
Það skiptir miklu máli hvaða atvinnugreinar draga vagninn í hagkerfinu til framtíðar og falli vel að þeirri mynd að Ísland er hálaunaland í alþjóðlegum samanburði með ein bestu lífskjör í heimi. Af ofangreindu má vera ljóst að fiskeldi fellur vel að þeirri mynd og sé ein þeirra grunnstoða sem treysta má á til framtíðar.