Fiskeldi: Augljós samdráttur
5. júní, 2020
Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam 2,0 milljörðum króna í maí samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í morgun. Það er verulegur samdráttur frá maí í fyrra, eða sem nemur um 24% í krónum talið en 33% í erlendri mynt. Það blasir því við að talsverður samdráttur hafi verið í útflutningsverðmæti eldisafurða, enda skiluðu eldisafurðir einar og sér útflutningstekjum upp á 2,3 milljarða króna í maí í fyrra. Það er í takt við það sem búast mátti við, en nánar um það má sjá í grein sem birtist á Radarnum í byrjun þessarar viku.
Aukning þó
Á fyrstu 5 mánuðum þessa árs hafa verið fluttar út landbúnaðarafurðir fyrir um 13,7 milljarða króna. Á sama tímabili í fyrra nam verðmæti þeirra tæplega 13 milljörðum króna. Það er tæplega 6% aukning á milli ára í krónum talið. Séu áhrif af lækkun á gengi krónunnar á milli ára hins vegar tekin út fyrir sviga, mælist samdráttur upp á 1%. Þetta kann að gefa til kynna að COVID-19 hafi þurrkað út þá myndarlegu aukningu sem komin var í útflutning á eldisafurðum fyrir þann tíma, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan sem sýnir vikulega þróun. Vægi eldisafurða er í kringum 85% af útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða. Vafalaust mun útflutningur á eldisafurðum aukast á ný áður en langt um líður, enda hafa áform greinarinnar um aukna framleiðslu ekki breyst þrátt fyrir þann usla sem farsóttin hefur valdið.