Fiskeldi: Fjórði stærsti mánuðurinn frá upphafi

30. apríl, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.739 milljónum króna í mars. Þetta er fjórði stærsti mánuður frá upphafi á kvarða útflutningsverðmæta, hvort sem mælt er í krónum eða erlendri mynt. Þetta er um 27% aukning í krónum talið frá mars í fyrra. Aukningin er ívið minni í erlendri mynt út af veikingu krónunnar en engu að síðu myndarleg, eða rúm 17%. Magnaukningin er svipuð, eða tæp 18%

Jákvæð tíðindi á erfiðum tímum
Sé tekið mið af fyrstu þremur mánuðum ársins, er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 8,2 milljarða króna. Það er 26% aukning í krónum talið á milli ára en rúm 21% í erlendri mynt. Þar af er útflutningsverðmæti á eldislaxi komið í rúma 6,4 milljarða króna samanborið við 5,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Aukningin þar er nákvæmlega sú sama og á eldisafurðum alls. Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, er komið í um 1,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Jafngildir það aukningu upp á rúm 54% í krónum talið en rúmum 48% á föstu gengi. Talsverður samdráttur hefur verið á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, en verðmæti þeirra á fyrsta ársfjórðungi nam 123 milljónum króna samanborið við 353 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Efnahagslegur styrkleiki landa til atvinnusóknar og uppbyggingar felst í öflugum grunnatvinnuvegum. Því fleiri og fjölbreyttari sem þeir eru, því meiri er efnahagslegur sveigjanleiki hagkerfa til þess að bregðast við óvæntum áföllum, án þess að það komi verulega niður á lífskjörum íbúa. Grunnatvinnuvegur er sá sem leggur mun meira til verðmætasköpunar í landinu en beint framlag hans til landsframleiðslu gefur til kynna, þar sem margfeldisáhrif hans út í hagkerfið eru veruleg. Þetta á einkum við um lítil opin hagkerfi líkt og hið íslenska. Vissulega er fiskeldi enn fremur smátt í sniðum miðað við stærstu útflutningsatvinnugreinarnar, en þar liggja þó veruleg tækifæri til frekari verðmætasköpunar. Því er ofangreind aukning á útflutningsverðmæti eldisafurða jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúið, sér í lagi á tímum sem þessum.

COVID-19 og fiskeldi
Í grein sem birtist á Radarnum í lok mars voru til umfjöllunar áhrif COVID-19 á starfsemi og útflutning eldisfyrirtækja, en þau hafa ekki farið varhluta af ástandinu fremur en aðrar atvinnugreinar. Má nefna verulegan samdrátt í eftirspurn, verðlækkanir og áhrif á dreifikerfi. Því má velta fyrir sér hvort aukningin hefði ekki orðið meiri í mars í eðlilegu árferði og reyndar verður það að teljast mjög líklegt. Áhrifin verða sennilega skýrari í tölum aprílmánaðar. Miðað við nýja tilrauntölfræði Hagstofunnar þá virðist útflutningur á eldisafurðum minnka verulega eftir viku 13, sem rímar vel við fregnir frá eldisfyrirtækjum. Þetta má sjá á myndinni hér fyrir neðan en eins og áður hefur verið minnst á heyra eldisafurðir undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar. Eldið á þar stærstan hlut og var það rúm 86% af heildarverðmæti útfluttra landbúnaðarafurða á fyrsta ársfjórðungi.

.

Deila frétt á facebook