Fiskeldi: Metár í útflutningi eldisafurða að baki
20. mars, 2023
Eins og margir vita, var árið 2022 metár í útflutningi á eldisafurðum. Alls voru fluttar út eldisafurðir fyrir um 49 milljarða króna, sem er um 39% aukning frá fyrra ári á föstu gengi. Afurðaverðshækkanir spiluðu stóra rullu í þessari aukningu á milli ára, enda var margfalt minni aukning að magni til, eða um 11%. Þessa aukningu í verðmætum má að langstærstum hluta rekja til laxeldis. Þannig var útflutningsverðmæti lax um helmingi meira á árinu 2022 en árið á undan, á föstu gengi. Eins var dágóð aukning í útflutningsverðmætum frjóvgaðra laxahrogna sem eru verðmæt hátækniframleiðsla, eða sem nemur um 38% á föstu gengi. Á hinn bóginn varð talsverður samdráttur í útflutningsverðmætum silungs, eða um 15% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam rétt um 1 milljarði króna og dróst saman um 14% á föstu gengi.
Bandaríkjamarkaður sá stærsti
Bandaríski markaðurinn hefur frá upphafi verið einn sá stærsti fyrir íslenskar eldisafurðir og sá langstærsti þegar kemur að bleikju. Útflutningsverðmæti eldisafurða til Bandaríkjanna námu 10,9 milljörðum króna á árinu 2022, sem er um 60% aukning í krónum talið frá fyrra ári. Vissulega spilar sú hækkun sem var á gengi bandaríkjadals hér inn í, en hann hækkaði talsvert gagnvart flestum gjaldmiðlum heims í fyrra eins og algengt er þegar óvissa eykst í heimshagkerfinu. Var gengi krónunnar að jafnaði um 7% lægra gagnvart bandaríkjadal á árinu 2022 en árið 2021. Að teknu tillit til þess jókst útflutningsverðmæti eldisafurða til Bandaríkjanna um 50% á milli ára, sem má þó teljast dágóð aukning. Aukninguna má nánast aflarið rekja til eldislax. Vægi bandaríska markaðarins jókst jafnframt talsvert á milli ára og fór hlutdeild hans í útflutningsverðmæti eldisafurða úr tæpum 19% í rúm 22%.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá 12 stærstu viðskiptalöndin fyrir eldisafurðir á árinu 2022 og útflutningsverðmæti undanfarin tvö ár. Þar má jafnframt sjá hvernig verðmætin skiptast niður eftir tegundum; lax, frjóvguð hrogn, silung og senegalflúru. Þess má geta að á myndinni hefur ekki verið leiðrétt fyrir gengisbreytingum, líkt og á myndinni á undan þar sem gengisvísitala Seðlabankans er notuð. Ástæðan er sú ólíka þróun sem átti sér stað á milli helstu viðskiptamynta, sem eðlilega hefur áhrif á verðmætin í krónum talið. Þannig var til að mynda gengi krónunnar gagnvart evru að jafnaði ríflega 5% sterkara á árinu 2022 en 2021 á sama tíma og það veiktist um tæp 7% gagnvart Bandaríkjadal. Þetta og meira til má sjá á mælaborði Radarsins, þar sem tölur um framleiðslu og útflutning á eldisafurðum hafa verið uppfærðar.