Fiskeldi: Stærsti janúarmánuður frá upphafi

28. febrúar, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.557 milljónum króna í janúar og hefur aldrei verið meira í janúarmánuði. Þetta er um 6% aukning í krónum talið frá janúar í fyrra þegar verðmæti afurðanna nám 2.414 milljónum króna. Á föstu gengi er aukningin aðeins minni, eða tæp 5%, þar sem gengi krónunnar var rúmlega 1% lægra nú í janúar en í sama mánuði í fyrra. Í tonnum talið var aukningin þó nokkuð minni, eða tæp 2%. Þetta sést í tölum sem Hagstofan birti í morgun.

Mestu munar um bleikju
Að þessu sinni munar mestu um aukningu á útflutningsverðmæti silungs, en verðmæti hans í janúar nam 604 milljónum króna samanborið við 438 milljónir í sama mánuði í fyrra. Það er 38% aukning í krónum talið á milli ára. Er hér aðallega um bleikju að ræða, en framleiðsla á henni hefur stóraukist undanfarin ár. Þess má geta að tölur um útflutning á eldisafurðum á Radarnum hafa verið betrumbættar þannig að silungur, sem er að langmestu leyti bleikja, er tilgreindur sér, enda er hér um heimsins stærsta bleikjueldi að ræða. Útflutningsverðmæti eldislax nam 1.909 milljónum króna í janúar samanborið við 1.812 milljónir í janúar í fyrra. Þetta er aukning upp á rúm 5% í krónum talið. Talsverður samdráttur varð á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, en verðmæti þeirra nú í janúar nam 44 milljónum króna samanborið við 164 milljónir í janúar í fyrra.

Nokkuð minni aukning í tonnum talið
Eins og áður segir jókst útflutningur á eldisafurðum í heild, í tonnum talið, nokkuð minna en í krónum.  Útflutningur eldislax jókst um rúm 2% að magni til í janúar á milli ára og kann því hagstæðara afurðaverð að hafa vegið upp verðmæti. Á hinn bóginn jókst útflutningur á silungi í tonnum talið meira en í verðmætum, eða um 56% á milli ára. Slíkur munur getur þó átt sér margar skýringar og þá aðrar en einungis verðhækkun eða lækkun afurðaverðs. Sókn á markaði sem eru margir og misverðmætir getur haft veruleg áhrif og eins hefur samsetning afurða sem eru misverðmætar mikið að segja, jafnvel innan sömu tegundaflokka. Útflutningur á öðrum eldisafurðum dróst saman um 84%, sem er ívið meira en samdrátturinn í verðmætum.

 

Deila frétt á facebook