Fiskeldi: Stærsti mánuðurinn frá upphafi

30. október, 2020

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmum 3.940 milljónum króna í september. Er hér um stærsta mánuð í útflutningi á eldisafurðum frá upphafi að ræða á alla mælikvarða. Það er verðmæta í krónum talið, verðmæta í erlendri mynt og í tonnum. Í krónum talið er um að ræða 182% aukningu frá september í fyrra. Aukningin er nokkuð minni í erlendri mynt út af veikingu á gengi krónunnar, en engu að síður hressileg, eða sem nemur 144%. Í tonnum talið er aukningin um 138%. Útflutningsverðmæti eldisafurða var 6,4% af verðmæti vöruútflutnings alls í september og hefur sú hlutdeild aldrei áður mælst hærri. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Mestu munar um eldislax
Aukningin er í takti sem við það sem búast mátti við og við fjölluðum um á Radarnum í byrjun þessa mánaðar. Myndarleg aukning í september skrifast að langmestu leyti á eldislax. Nam útflutningsverðmæti eldislax um 3.230 milljónum króna í september og hefur aldrei áður verið meira. Er hér um 194% aukningu að ræða frá sama mánuði í fyrra, mælt í erlendri mynt. Útflutningsverðmæti silungs, sem er aðallega bleikja, nam rúmum 540 milljónum króna í september og jókst um 24% á milli ára á sama kvarða. Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam rúmlega 170 milljónum og jókst um 128% á milli ára.

Um 5% af vöruútflutningi
Sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins, er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 20,5 milljarða króna. Það er um 11% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Þar af hefur útflutningsverðmæti eldislax aukist um rúm 16% og silungs um tæp 14%. Aukninguna má að öllu leyti rekja til aukinnar framleiðslu, en fiskeldi er ein fárra útflutningsgreina sem er í vexti um þessar mundir. Alls er verðmæti vöruútflutnings komið í tæpa 448 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er rúmlega 15% samdráttur frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Án útfluttra skipa og flugvéla er samdrátturinn nokkuð minni, eða rúm 10%. Sem hlutfall af verðmæti vöruútflutnings alls á fyrstu níu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 4,6% og hefur það aldrei áður verið hærra, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Jákvæð tíðindi á erfiðum tímum
Þrátt fyrir umtalsverðan vöxt á árinu, þá hefur fiskeldi vissulega ekki farið varhluta af því ástandi sem nú er uppi, eins og við höfum fjallað talsvert um á Radarnum. Hafa markaðir með eldisafurðir, líkt og með margar aðrar afurðir, gjörbreyst frá því sem áður var. Áhrifin eru hvað sýnilegust á afurðaverð, sem hefur lækkað verulega frá því COVID-19 skall á um miðjan mars, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Lækkunin var sér í lagi mikil á öðrum ársfjórðungi en eins er þó nokkur lækkun á þeim þriðja. Þar má jafnframt sjá að útflutningsframleiðslan í september er að skila sér vel inn í tölur fyrir þriðja ársfjórðung. Er því ljóst að aukin umsvif og framleiðsla í fiskeldi eru afar jákvæð tíðindi og þá sér í lagi í því erfiða árferði sem nú ríkir.

 

Deila frétt á facebook