Fjárfesting tryggir samkeppnishæfni

7. apríl, 2022

Mikil þróun hefur orðið í tækni og nýsköpun undanfarinn áratug sem leitt hefur til umtalsverða breytinga á vinnumarkaði og atvinnuháttum. Áhrif þessa sjást vel í íslenskum sjávarútvegi. Þar hefur hefðbundnum störfum í veiðum og vinnslu fækkað, störfin hafa breyst og eru orðin sérhæfðari en áður. Á sama tíma hefur veruleg fjölgun orðið á afleiddum störfum sem tengjast nýsköpun og tækni í sjávarútvegi. Sjávarútvegur hefur verið einn aðal drifkrafturinn í tækniþróun og nýsköpun í íslensku hagkerfi. Fjölmörg hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki hér á landi hafa sprottið upp vegna samstarfs og viðskipta við sjávarútvegsfyrirtæki. Stærsti hluti hátæknibúnaðar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa fjárfest í, á undanförnum árum, bæði til sjós og lands, er íslenskur. Fjárfestingin hefur aukið framleiðni í íslenskum sjávarútvegi og það hefur skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld. Án góðrar fótfestu þar, er tómt mál að tala um arðbæran íslenskan sjávarútveg.

Margföldunaráhrif
Ofangreind þróun hefur stuðlað að því að stærsti hluti framleiðslunnar og verðmætasköpunar í sjávarútvegi hefur haldist hér á landi og þannig hefur verið hægt að tryggja störf. Þrátt fyrir mikla aukningu á framleiðni í sjávarútvegi, vegna tæknibyltingar, starfar enn fjöldi manns víða um land við veiðar og vinnslu. Á undanförnum árum hafa í kringum 8 þúsund manns starfað við veiðar og vinnslu. Það er ríflega 4% launafólks á Íslandi, sem er mun hærra hlutfall en í flestum ríkjum heims. Það eru vissulega færri en áður og hlutfallið lægra, en mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskan vinnumarkað er þó öllu meira en þessar tölur benda til. Ástæðan er sú að sjávarútvegur er einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur þjóðabúsins og hefur verið um áraraðir. Sú staða hefur ekki breyst þrátt fyrir breytingar sem orðið hafa í greininni.

En hvað er grunnatvinnuvegur? Í stuttu máli er það er atvinnuvegur sem hefur mun meiri efnahagslega þýðingu en beint umfang hans gefur til kynna. Aðrir  atvinnuvegir eru háðir starfsemi hans en hann er ekki háður starfsemi þeirra í sama mæli og fjöldi fyrirtækja treystir á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja með beinum eða óbeinum hætti. Hvort sem það eru fyrirtæki í hefðbundnum hliðargreinum sjávarútvegs eða nýsköpunarfyrirtæki sem byggja starfsemi sína á nýtingu sjávarafurða með óhefðbundnum hætti. Þá eru ótalin þau fjölmörgu hátæknifyrirtæki sem þegar er getið. Þau fyrirtæki hafa þó vissulega skapað sér sjálfstæða tilveru og hafið eigin útflutning, en þau hefðu ekki orðið til nema vegna samstarfs við sjávarútveg. Það er því ljóst að það eru fjölmörg önnur störf, en veiðar og vinnsla, sem hvíla á samkeppnishæfum sjávarútvegi.

Farsældin felst í fjölbreytni
Vægi sjávarútvegs er þó vissulega minna nú en það var á árum áður, sér í lagi sá hluti er snýr að veiðum og vinnslu. Það er eðlileg þróun og í reynd afar jákvæð. Það gefur auga leið að þegar umsvif annarra atvinnugreina eykst, sem ekki eru bundnar takmörkunum af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, minnkar vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum. Það jafngildir þó ekki að verðmætasköpun í sjávarútvegi sé að dragast saman, þvert á móti. Hið jákvæða er augljóslega sú staðreynd að atvinnulífið er fjölbreyttara nú en áður. Verðmætasköpun er fjölþættari, til dæmis í hvers konar nýsköpun, tæknifyrirtækjum og ferðaþjónustu. Fjölbreytni treystir betur grunnstoðir hagsældar, því það getur verið brothætt að vera of háð gengi einnar atvinnugreinar. Íslendingar hafa vissulega reynslu af því.

Á mælaborði Radarsins hafa tölur verið uppfærðar um sjávarútveg og vinnumarkað, auk þess sem nýjum upplýsingum hefur verið bætt þar inn. Tölurnar ná þó einungis til fjölda launafólks og staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í veiðum og vinnslu en ekki í tengdum greinum sjávarútvegs. Á næstu dögum bætist við hvernig sjávarútvegur dreifist um landið og mun fréttabréf fylgja um leið og það hefur verið uppfært.

 

 

 

Deila frétt á facebook