Greiðslur veiðigjalds þrefaldast milli ára

22. maí, 2023

Alls greiddu útgerðir um 1.852 milljónir króna í veiðigjald vegna veiða í mars. Vafalaust hafa tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi aldrei verið meiri í einum mánuði. Þetta er þreföld sú fjárhæð sem útgerðir greiddu fyrir veiðar í mars í fyrra, en þá nam heildarfjárhæð veiðigjaldsins 617 milljónum króna. Það kemur eflaust fáum á óvart að af einstaka fisktegundum munar mest um veiðigjald af loðnu í mars, enda unnu stjórnendur og starfsmenn uppsjávarfyrirtækja myrkranna á milli í mánuðinum við að ná loðnukvótanum. Það tókst og lönduðu uppsjávarskipin samanlagt 215 þúsund tonnum af loðnu í mars. Fyrir hvert kíló af loðnu þarf að greiða 5,54 krónur í veiðigjald og nam því heildarfjárhæð veiðigjalds af loðnuveiðum ríflega 1.191 milljón króna í mars. Þorskveiðar (401 milljón króna) skiluðu svo næsthæstri fjárhæð í veiðigjald í mars og svo ýsuveiðar (121 milljón). Þetta má sjá í nýlegum tölum sem Fiskistofa birti á vef sínum.


Mestu munar um loðnu, svo þorsk

Samanlagt hafa útgerðir greitt um 3.650 milljónir króna í veiðigjald vegna veiða á fyrsta ársfjórðungi. Ætla má að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi fyrir fyrsta ársfjórðung hafi aldrei verið meiri. Miðað við sama tímabil í fyrra er um 150% aukningu að ræða. Mestu munar um þær 1.805 milljónir sem uppsjávarútgerðir greiddu í veiðigjald af loðnu á fjórðungnum. Í fyrra var ekkert veiðigjald af loðnu, enda var loðnubrestur á árinu 2020 sem reiknistofns veiðigjaldsins var byggt á. Þorskveiðar skiluðu næsthæstri fjárhæð í veiðigjald (1.180 milljónum króna) á fjórðungnum, sem er þó aðeins lægri fjárhæð en í fyrra. Það má einkum rekja til þess að þorskaflinn var um 10% minni á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tímabili í fyrra. Á móti kemur að fjárhæð veiðigjalds á hvert kíló á þorski er hærra í ár en í fyrra. Veiðar á ýsu (339 milljónir) hafa skilað þriðju hæstu fjárhæðinni í veiðigjald, sem er töluvert hærri fjárhæð en í fyrra. Það má hvort tveggja rekja til þess að meiri afla var landað í ár en í fyrra og krónutala veiðigjalda er hærri í ár en í fyrra. Veiðar á kolmunna (195 milljónir) skipa svo fjórða sætið í þessari upptalningu. Engar tekjur voru af veiðigjaldi af kolmunnaveiðum á fyrsta ársfjórðungi í fyrra, enda voru engar kolmunnaveiðar stundaðar þá þar sem uppsjávarskipin voru öll á loðnuveiðum.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá heildarfjárhæð veiðigjalds á fyrsta fjórðungi hvers árs frá árinu 2018. Þar má sjá sundurliðaða heildarfjárhæð veiðigjaldsins fyrir þær fjórar tegundir sem voru fyrirferðamestar á fyrsta fjórðungi í ár. Heildarfjárfjárhæð veiðigjalds af öllum öðrum tegundum er síðan tekin saman í einn flokk. Jafnframt má sjá hve mikill afsláttur hefur verið gefinn af veiðigjaldi á árinu, en hver gjaldskyldur aðili fær 40% afslátt af fyrstu 7.867.192 krónum sem hann greiðir í veiðigjald í ár. Þessi afsláttur kemur sér einkar vel fyrir smærri aðila, en á undanförnum árum hefur um 90% af öllum útgerðum sem greitt hafa veiðigjald fengið fullan afslátt af þeirri fjárhæð sem þær greiða í veiðigjald. Áhrif afsláttarins minnka eðlilega eftir því sem aðilar greiða hærri fjárhæð í veiðigjald. Ítarlegri sundurliðun á veiðigjaldi á fyrsta ársfjórðungi má sjá í töflu neðst í fréttinni. Þar má sjá afla, hið eiginlega veiðigjald (krónur á hvert kíló) og tekjur ríkissjóðs af hverri tegund í bæði ár og í fyrra.


Uppsjávargeirinn fyrirferðarmikill

Þegar litið er á heildarfjárhæð veiðigjalds eftir sveitarfélögum á fyrsta ársfjórðungi kemur ekki á óvart að þau sveitarfélög þar sem uppsjávarveiðar eru fyrirferðarmiklar raða sér í efstu sætin. Þannig greiddu útgerðir í Fjarðabyggð mest í veiðigjald á fyrsta ársfjórðungi, eða samanlagt um 800 milljónir króna. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá er langstærsti hluti þeirrar fjárhæðar vegna loðnuveiða. Annar uppsjávarfiskur er nánast að öllu leyti vegna kolmunnaveiða, eins og sjá má í töflunni hér neðst. Vestmannaeyjabær kemur fast á hæla Fjarðabyggðar, en þar hafa útgerðir greitt um 767 milljónir króna í veiðigjald. Þess má geta að ef miðað hefði verið við byggðakjarna í stað sveitarfélaga, hefðu Vestmannaeyjar trónað á toppnum. Eins má sjá að veiðigjald af loðnu er fyrirferðarmikið hjá útgerðum í Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ og Sveitarfélaginu Hornafirði.

Myndin sýnir jafnframt að sveitarfélögin eru ólík þegar kemur að fiskveiðum. Veiðar á uppsjávarfiski eru ekki jafn dreifðar um landið og á botnfiski. Þar hefur orðið meiri samþjöppun á aflaheimildum, enda eru bæði aflabrögð og afurðaverð mun sveiflukenndari í uppsjávarfiski en botnfiski og reksturinn þar af leiðandi áhættusamari. Nýlegur loðnubrestur tvö ár í röð, það er árin 2019 og 2020, er ágætt dæmi um það. Þar skiptir nálægð við fiskimið jafnframt meira máli en nálægð við markaði, enda skiptir mestu að koma afla ferskum úr sjó og í vinnslu í landi. En á myndinni má ennfremur sjá sveitarfélög frá hverjum einasta landshluta, sem endurspeglar þá staðreynd að öflug sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett hringinn í kringum landið.  

 

 

 

 

Deila frétt á facebook