Hátt í tvöföldun á milli ára

7. september, 2021

Alls voru eldisafurðir fyrir 2.750 milljónir króna fluttar út í ágúst samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun um vöruskipti í mánuðinum. Í ágúst í fyrra nam útflutningsverðmæti eldisafurða um 1.517 milljónum króna og því er aukning á milli ára um 81% í krónum talið. Aukningin er nokkuð meiri á milli ára á föstu gengi, eða um 95%, þar sem gengi krónunnar var tæplega 8% sterkara nú í ágúst en í ágúst í fyrra. Þar sem þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum, er ekki hægt að sjá frekari sundurliðun fyrir einstaka tegundir. Það eru þó afar góðar líkur á því að aukninguna megi rekja til eldislax líkt og undanfarin misseri. Frekari sundurliðun á tölunum verður birt í lok þessa mánaðar.

Um 50% aukning það sem af er ári
Á fyrstu 8 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 24,4 milljarða króna. Það er um 49% aukning frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan, þá hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei áður verið meira á tímabilinu. Það er um 5,2% af heildarverðmæti vöruútflutnings á tímabilinu og hefur það hlutfall heldur ekki verið hærra á þessum hluta árs áður.

 

Deila frétt á facebook