Laxinn leitar vestur um haf
4. febrúar, 2022
Samhliða auknu fiskeldi og framleiðslu íslenskra eldisfyrirtækja hefur útflutningur aukist og viðskiptalöndum fjölgað. Langstærsti hluti af framleiðslu eldisfyrirtækja er seldur á mörkuðum erlendis. Eldisafurðir fyrir rúma 36 milljarða króna voru fluttar út í fyrra, til á fimmta tug landa. Verðmætin hafa aldrei verið meiri eða löndin fleiri. Eðlilega er mismikið flutt til einstakra landa og verðmætin eftir því, en þetta er niðurstaðan þegar fjöldi viðskiptalanda er talinn í bókum Hagstofunnar. Fyrir áratugi voru löndin 25 og útflutningsverðmæti rétt rúmir 4 milljarðar króna, reiknað á föstu gengi ársins 2021.
Um 73% af eldisafurðum voru flutt til Evrópu miðað við verðmæti. Það er talsvert minna en vægi Evrópumarkaðar var á árinu 2020, þá nam hlutdeildin 86%. Ástæðan er einkum stóraukinn útflutningur á eldisafurðum vestur um haf, sem var langt umfram þá aukningu sem var á útflutningi til Evrópu. Þannig nam útflutningsverðmæti eldisafurða til Evrópu 26,5 milljörðum króna í fyrra, sem er ríflega 8% aukning á milli ára á föstu gengi. Útflutningsverðmæti eldisafurða til Norður-Ameríku nam um 8,8 milljörðum króna, sem er um 144% aukning á milli ára. Hlutdeild Norður-Ameríku fór þar með úr tæpum 13% í rúm 24%. Til einföldunar er hér leiðrétt með gengisvísitölu Seðlabankans, en vitaskuld eru viðskipti með eldisafurðir í mismunandi gjaldmiðlum sem breytast mismikið í verði gagnvart krónu frá einu ári til annars.
Bandaríkin endurheimta toppsætið
Bandaríski markaðurinn hefur frá upphafi verið einn sá stærsti fyrir íslenskar eldisafurðir og sá langstærsti þegar kemur að bleikju. Vægi hans minnkaði þó talsvert á öðrum áratug þessarar aldar samfara auknu laxeldi. Sú varð þó ekki raunin í fyrra. Vægi bandaríska markaðarins jókst verulega og fór hlutdeild hans í útflutningsverðmæti eldisafurða úr 11% í 19% á milli ára. Aukninguna má fyrst og fremst rekja til verulegrar aukningar á útflutningi á eldislaxi. Þannig námu útflutningsverðmæti eldisafurða til Bandaríkjanna 6,8 milljörðum króna á árinu, sem er um 122% aukning á föstu gengi á milli ára. Þar af nam verðmæti útfluttra laxaafurða 5,1 milljarði kóna og jókst um 261% á milli ára.
Hlutfallslega var aukningin þó einna mest á útflutningi til Kanada. Alls voru fluttar út eldisafurðir til Kanada fyrir um 2,0 milljarða króna í fyrra. Það er um 266% aukning á milli ára á föstu gengi. Að langstærstum hluta má rekja hana til lax, en verðmæti laxaafurða þangað sjöfölduðust á milli ára.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá 12 stærstu viðskiptalöndin fyrir eldisafurðir á árinu 2021 og útflutningsverðmæti undanfarin tvö ár. Þar má jafnframt sjá hvernig verðmætin skiptast niður eftir tegundum; lax, frjóvguð hrogn, Senegalflúru og silung, sem er að langstærstum hluta bleikja en eitthvað er um regnbogasilung. Þetta og meira til má sjá á mælaborði Radarsins, en þar hafa útflutningstölur um eldið verið uppfærðar. Þá hefur myndum jafnframt verið fjölgað frá fyrri útgáfu.