Lítill fiskur vegur þungt

8. júní, 2021

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 28,3 milljörðum króna í maí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum. Það er 18% aukning í krónum talið miðað við maí í fyrra. Gengi krónunnar var um 6% sterkara í maí en í sama mánuði í fyrra og er aukningin þar með nokkuð meiri í erlendri mynt, eða um 25%. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu Hagstofunnar, munar mest um aukið verðmæti loðnuhrogna, en þau eru í flokknum „aðrar sjávarafurðir“. Útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ nam rúmlega 6,7 milljörðum króna í maí samanborið við 1,7 milljarða í maí í fyrra. Er hér um að ræða fjórföldun á milli ára á föstu gengi og sjá má að þessi flokkur skilar mestum verðmætum af einstaka flokkum sjávarafurða nú í maí. Svo má ætla að heilfryst loðna komi við sögu í þeirri 14% aukningu sem er á útflutningsverðmætum á heilum frystum fiski. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir flokkum í maí undanfarinn áratug.


Myndarleg aukning
Loðnan er ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland og hefur skilað næstmestum útflutningsverðmætum á eftir þorskinum af öllum fisktegundum undanfarinn áratug. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í um 9,2 milljarða króna og miðað við ofangreindar tölur má ætla að það bætist nokkuð myndarlega við þegar maítölurnar koma. Það mun koma í ljós í lok júní þegar Hagstofan birtir frekari sundurliðun á tölum maímánaðar.

Sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 122 milljarða króna. Hefur það aðeins einu sinni áður verið meira á þeim tíma árs undanfarinn áratug, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Í krónum talið er aukningin rúmlega 15% frá sama tímabili í fyrra, en á föstu gengi er aukningin 13%. Verðmæti „annarra sjávarafurða“ hefur aukist hlutfallslega mest á milli ára, eða sem nemur 128% á föstu gengi, sem rekja má til frystra loðnuhrogna. Næstmest hefur aukningin verið á útflutningsverðmætum á frystum heilum fiski, eða um 24% á föstu gengi, þar hefur loðnan einnig stóru hlutverki að gegna. Eins hefur verið dágóð aukning á útflutningsverðmætum ferskra afurða, eða sem nemur um 23% á föstu gengi. Útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka dróst saman á milli ára, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Sjávarafurðir voru alls um 43% af verðmæti vöruútflutnings á fyrstu fimm mánuðum ársins, sem er aðeins meira en það hefur verið að jafnaði undanfarinn áratug. 

 

Deila frétt á facebook