Loðna sér á báti

30. nóvember, 2022

Á fyrstu 10 mánuðum ársins er útflutningsverðmæti loðnuafurða komið í tæpa 46 milljarða króna. Það er hátt í tvöföldun frá sama tímabili í fyrra. Loðna hefur þar með skilað næstmestu útflutningsverðmæti á eftir þorski af öllum þeim fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi. Það kemur eflaust fáum á óvart miðað við 521 þúsund tonna loðnuafla sem íslensk uppsjávarskip veiddu á síðustu vertíð. Það kann hins vegar að koma einhverjum á óvart að aukningin sé ekki enn meiri miðað við aflann árið á undan, sem var 71 þúsund tonn.

Í samanburði við aðra fiskistofna er loðnan sér á báti. Hlutfallslegt samband á milli magns og verðmæta er ekki til staðar og erfitt er að nota eina loðnuvertíð til þess að spá fyrir um þá næstu. Hversu stór loðnukvótinn er hverju sinni hefur áhrif á aflaráðstöfun og þar með samsetningu afurða til útflutnings. Almennt hefur hlutdeild loðnuhrogna, sem eru verðmætustu afurðir loðnu, verið meiri eftir því sem kvótinn er minni. Það þýðir, að öðru óbreyttu, hærra verð fyrir hvert kíló sem dregið er úr sjó. Að sama skapi hefur almennt farið hlutfallslega meira í bræðslu þegar kvótinn er stærri, sem hefur í för með sér meiri útflutning á loðnumjöli og lýsi. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að einungis 25% verður eftir til útflutnings af þeim loðnuafla sem fer í bræðslu, það er 18% mjöl og 7% lýsi.


Samsetning afurða önnur
Ofangreind lýsing á stærð og ráðstöfun aflans kemur ágætlega fram á myndinni hér fyrir neðan. Þar blasir við hversu fyrirferðarmikið loðnumjöl og lýsi er í útflutningi það sem af er ári, en var afar lítið í fyrra. Samanlagt er útflutningsverðmæti loðnumjöls og lýsis komið í 25,6 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er 56% af heildarverðmæti útfluttra loðnuafurða í ár. Á sama tímabili í fyrra voru þau rétt um 1,5 milljarður króna og innan við 7% af verðmæti loðnuafurða. Á neðangreindri mynd eru tölur fyrir árin 2021 og 2022 útflutningur á fyrstu 10 mánuðunum, en útflutningur árin þar á undan á við allt árið.  

Útflutningsverðmæti loðnuhrogna á fyrstu tíu mánuðum ársins er komið í 13,6 milljarða króna. Það er rúmlega 4% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Í dollurum talið, sem er helsta viðskiptamyntin með loðnuafurðir, er hins vegar samdráttur upp á rétt rúmt 1%. Það má alfarið rekja til þess að um 7% minna magn hefur verið flutt út í ár en í fyrra, eða 6.000 tonn á móti 6.500 tonnum. Af þessu er ljóst að um 6% hærra verð, talið í dollurum, hefur að jafnaði fengist fyrir loðnuhrogn í ár en í fyrra. Gróflega má áætla að heildarframleiðsla hrogna frá síðustu loðnuvertíð hafi verið í kringum 11 þúsund tonn og því ljóst að töluvert á enn eftir að skila sér í útflutningstölur Hagstofunnar. Einhver hluti af því sem eftir stendur gæti þó verið selt, en er í geymslu hér á landi og skilar sér í bækur Hagstofunnar við útflutning. Líklegt er þó að talsvert sé um óseldar birgðir af hinum svokölluðu iðnaðarhrognum, en Austur-Evrópa er stærsta markaðssvæði þeirra. Gefur auga leið að aðstæður á mörkuðum fyrir þau hafi versnað til muna vegna innrásarinnar í Úkraínu og áhrif stríðsins á nálæg lönd, eins og Hvíta Rússland.

Talsvert önnur mynd teiknast upp fyrir frysta heila loðnu. Þannig er útflutningsverðmæti á heilfrystri loðnu komið í 6,1 milljarð króna á fyrstu 10 mánuðum ársins, sem er um þriðjungi minna í dollurum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Þann samdrátt má alfarið rekja til lækkunar afurðaverðs á milli ára, enda hefur meira magn verið flutt út í ár en í fyrra, eða um 34 þúsund tonn á móti rúmum 26 þúsund tonnum. Meðalverð á heilfyrstri loðnu hefur verið hátt í helmingi lægra í ár en það var á sama tímabili í fyrra. Sú lækkun skýrist þó að hluta til að verð í fyrra var óvenjuhátt, sem rekja má til framboðsskorts vegna loðnubrests árin þar á undan. Ástandið í Austur-Evrópu hefur þó einnig áhrif í þessu tilviki.  


… sem hefur augljós áhrif á viðskiptalönd
Hvernig loðnuaflanum er ráðstafað hefur mikil áhrif á viðskipti einstakra landa. Þar sem stærsti hluti aflans fór í bræðslu í ár kemur ekki á óvart sú gríðarlega aukning sem er á útflutningi til Noregs. Norðmenn eru stærstu kaupendur á fiskimjöli og lýsi frá Íslandi, enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims. Noregur er því langstærsta viðskiptalandið með loðnuafurðir í ár, en komst varla á blað í fyrra. Á fyrstu 10 mánuðum ársins nema útflutningsverðmæti loðnuafurða til Noregs, sem er nær eingöngu mjöl og lýsi, 15,1 milljarði króna samanborið við 0,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Eins hefur útflutningur til Bretlands snaraukist af sömu ástæðu, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Myndin sýnir einnig nokkurn útflutning á loðnuhrognum til annarra Vestur-Evrópulanda, sem að stærstum hluta er skráð á Holland. Þar er stór umskipunarhöfn og því óvíst hvar sá útflutningur endar. Það er nefnilega ekki alltaf klippt og skorið hvert endanlegt viðskiptaland er með því að líta einungis á útflutningstölur.

Á myndinni má jafnframt sjá að langstærsti hluti loðnuhrogna, miðað við verðmæti, er flutt til Asíu. Kína er þar langstærst þar sem þangað hafa verið flutt út hrogn fyrir 5,2 milljarða króna á fyrstu 10 mánuðum ársins. Japan er númer tvö í röðinni, en útflutningur þangað nemur rúmum 1,9 milljarði króna. Hér er þó ekki allt sem sýnist, en ætla má að þessar tölur ofmeti hlutdeild Kína. Þannig er Kína til að mynda stór innflytjandi af hráefni til frekari vinnslu. Í gegnum tíðina hefur verið talsvert um að japanskir framleiðendur kaupi loðnu og flytji hana til Kína til frekari vinnslu til manneldis sem endar svo á mörkuðum í Japan. Eins fer stærsti hluti af heilfyrstri loðnu til Asíu og er Kína (2,8 milljarðar) þar aftur stærst og  fylgir Japan (1,6 milljarður) þar á eftir.

Austur-Evrópa hefur einnig verið stórt markaðssvæði fyrir loðnuhrogn, aðallega iðnaðarhrogn, og svo heilfrysta loðnu. Útflutningsverðmæti loðnuafurða hefur dregist töluvert saman á milli ára til Austur-Evrópu af áðurnefndum ástæðum, og þá þrátt fyrir að meira hafi verið flutt út að magni til. Að lokum má nefna Norður-Ameríku, sem er að langstærstum hluta útflutningur til Bandaríkjanna og nær eingöngu loðnuhrogn.


Óvissuferð framundan
Vafalaust hefur stærsti hluti framleiðslunnar frá síðustu loðnuvertíð skilað sér í útflutningstölur Hagstofunnar, þó ljóst er að einhver hluti eigi enn eftir að skila sér. Það mun eflaust mjatlast inn í tölurnar á næstu mánuðum eða misserum. Ætla má að loðnuvertíðin muni á endanum skila 55 til 60 milljörðum króna í útflutningstekjur.

Á yfirstandandi fiskveiðiári hafa íslensk fiskveiðiskip heimild til þess að veiða um 132 þúsund tonn af loðnu. Vonir eru þó bundnar við að ráðgjöf hækki í kjölfar stofnmælinga í byrjun næsta árs. Miðað við ofangreint er ljóst að af mörgu þarf að huga á komandi vertíð. Í því samhengi skiptir sköpum að það liggi sem fyrst fyrir hvort viðbótarkvóti verði gefinn út og þá hversu stór hann verði. Skipulag veiða og ráðstöfun aflans ræðst af stærð loðnukvótans. Því minni sem hann er, því hlutfallslega meira er veitt á mánaðartímabili frá miðjum febrúar þegar loðnan er hrognafull. Ef töluverðu magni yrði bætt við kvótann seint á vertíðinni, gæti það reynst þjóðarbúinu dýrkeypt.

Af ofangreindu er ljóst að erfitt er að áætla að svo stöddu hvað komandi vertíð muni skila í útflutningstekjum, óvissan er mikil. Ómögulegt er að heimfæra síðustu vertíð yfir á næstu og erfitt er að taka mið af vertíðinni í fyrra þegar kvótinn var allur nýttur á mánaðartímabili þegar loðnan var hrognafull og afurðaverð markaðist af framboðsskorti undangenginna ára. Þegar öllu er á botninn hvolft er þó ljóst að í öllu þessu ferli þarf mikla útsjónarsemi hjá fyrirtækjunum sjálfum til þess að hámarka verðmætin. Sú mikla fjárfesting sem uppsjávarfyrirtækin hafa ráðist á undanförnum árum, í skipum, hátæknivinnslum og sölu og markaðssetningu, mun þar án nokkurs vafa koma sér vel.

 

Deila frétt á facebook