Loðnan vóg þungt þrátt fyrir brest

14. febrúar, 2020

Útflutningsverðmæti uppsjávarafurða nam tæplega 50 milljörðum króna á árinu 2019, sem er nánast á pari við árið 2018. Þetta kann að koma nokkuð á óvart þar sem loðnubrestur varð á árinu, enda hafa loðnuafurðir vegið þyngst í útflutningsverðmætum uppsjávarafurða á þessari öld.

Vitaskuld hafði gengislækkun krónunnar í fyrra veruleg áhrif á útflutningsverðmæti í krónum talið, en gengi krónunnar var að jafnaði 8% lægra á árinu 2019 en 2018. Þar að auki var hagstæð þróun á verði uppsjávarafurða, en það var rúmlega 9% hærra í erlendri mynt á árinu 2019 en 2018. Hækkunin náði til nær allra tegunda, en var sér í lagi mikil á loðnuafurðum enda framboð þar takmarkað miðað við eftirspurn. Vóg gengi krónunnar og verð sjávarafurða í erlendri mynt þar með upp þann 16% samdrátt sem varð í útfluttu magni sem má að langmestu leyti rekja til loðnubrests. Þess má geta að hér er um að ræða magn að teknu tilliti til undirliggjandi tegunda, en sjávarafurðir eru fjölbreyttar og misverðmætar og samsetning þeirra í útflutningi breytileg frá einu ári til annars.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða nam 8,4 milljörðum króna í fyrra, sem var sala á framleiðslu undanfarinna ára. Hún verður augljóslega ekki endurtekin í ár enda eru loðnubirgðir að klárast, ef þær eru ekki nú þegar búnar. Þessi brigðasala vóg rúmlega 17% af útflutningsverðmætum uppsjávarafurða í fyrra, sem má teljast ansi drjúgt. Nánar um þetta og fleira má sjá á Radarnum, þar sem tölur um útflutning á uppsjávarafurðum hafa verið uppfærðar.

 

Deila frétt á facebook