Loðnubrestur setur mark sitt á fjárhæð veiðigjalds

2. júlí, 2024

Á fyrstu fimm mánuðum ársins hafa útgerðir greitt rúmar 4.627 milljónir króna í veiðigjald. Það er um 10% lægri fjárhæð en þær höfðu greitt á sama tímabili í fyrra, en þá var fjárhæð veiðigjaldsins komin í 5.154 milljónir. Það kemur vafalaust fáum á óvart að þessa lækkun á fjárhæð veiðigjaldsins á milli ára má fyrst og fremst rekja til loðnubrests í ár. Í fyrra var loðnuaflinn um 326 þúsund tonn og skiluðu loðnuveiðar þar með um 1.805 milljónum króna í veiðigjald. Sé veiðigjald af loðnu hins vegar undanskilið í tölunum teiknast upp allt önnur mynd, en þá er heildarfjárhæð veiðigjaldsins rúmlega 38% hærri á fyrstu fimm mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra. Þetta má sjá í nýlegum tölum sem Fiskistofa birti á vef sínum.


Mestu munar um þorsk …

Að vanda hafa þorskveiðar skilað hæstri fjárhæðinni í veiðigjald á fyrstu fimm mánuðunum, eða sem nemur 2.641 milljón króna. Eins og sjá má á myndinni hér á undan þá er það er töluvert hærri fjárhæð en veiðigjald af þorski var komið í á sama tímabili í fyrra, eða aukning upp á 43%. Það má fyrst og fremst rekja til þess að upphæð veiðigjaldsins á hvert kíló af þorski í ár er sú hæsta í sögunni og umtalsvert hærri en hún var í fyrra, eða 26,66 krónur á móti 19,17 krónum. Það má svo aftur rekja til þess að afkoma af þorskveiðum var mun betri árið 2022 en 2021, en upphæð veiðigjaldsins í ár er byggð á afkomu ársins 2022. Eins og flestum er kunnugt um þá nemur veiðigjald 33% af afkomu fiskveiða. Þar að auki var þorskaflinn tæplega 3% meiri á fyrstu fimm mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra. Aflinn skiptir eðlilega einnig máli í þessu sambandi, enda er sú fjárhæð sem fyrirtækin greiða í veiðigjald af tiltekinni tegund einfaldlega margfeldi af afla og upphæð veiðigjaldsins.
 

… svo ýsu og kolmunna

Veiðar á ýsu hafa skilað næsthæstri fjárhæðinni í veiðigjald, eða sem nemur 802 milljónum króna. Það er einnig töluvert hærri fjárhæð en ýsuveiðar skiluðu á sama tímabili í fyrra í veiðigjald. Það má hvort tveggja rekja til þess að hátt í þriðjungi meiri afla hefur verið landað af ýsu í ár en í fyrra og krónutala veiðigjaldsins er hærri í ár en í fyrra, eða 22,28 krónur á móti 19,82 krónum. Veiðar á kolmunna skipa svo þriðja sætið í þessari upptalningu, en þær hafa skilað 792 milljónum króna í veiðigjald. Þar er jafnframt saman sagan; kolmunnaaflinn er rúmlega 9% meiri á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra og greiða þarf 3,20 krónur fyrir hvert kíló af kolmunna í ár samanborið við 2,49 krónur í fyrra.

Veiðigjald af öllum öðrum tegundum en þeim þremur sem tilgreindar eru hér á undan nemur samanlagt um 792 milljónum króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Sjá má ítarlega sundurliðun á þeirri fjárhæð í töflunni hér fyrir neðan. Þar má sjá afla, hið eiginlega veiðigjald (krónur á hvert kíló) og tekjur ríkissjóðs af hverri tegund, bæði í ár og í fyrra. Þar að auki má sjá hversu mikill afsláttur hefur verið gefinn af veiðigjaldi, en hann er kominn upp í tæpar 400 milljónir í ár samanborið við 331 milljón á sama tímabili í fyrra. Þannig fær hver gjaldskyldur aðili 40% afslátt af fyrstu 8.476.090 krónum sem hann greiðir í veiðigjald í ár. Í fyrra var viðmiðunarfjárhæðin 7.867.162 krónur, en hún breytist í takti við vísitölu neysluverðs.

 

Deila frétt á facebook