Metár að baki í útflutningstekjum af fiskeldi
10. janúar, 2025
Útflutningsverðmæti eldisafurða á nýliðnu ári nam tæpum 54 milljörðum króna og hefur aldrei áður verið meira. Það er rúmlega 16% aukning frá árinu 2023, bæði á breytilegu og föstu gengi. Útflutningsverðmæti eldisafurða var rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls. Þau hlutföll hafa heldur aldrei verið hærri. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í desember sem birtar voru í vikunni. Í fyrstu bráðabirgðatölum er ekki birt sundurliðun á útflutningsverðmæti einstakra tegunda eldisafurða, en tölur þess efnis verða birtar í lok mánaðar.
Fleiri stoðir styrkja þjóðarhag
Samhliða bráðabirgðatölum fyrir desember birti Hagstofan einnig ítarlegri tölur fyrir nóvember þar sem sjá má sundurliðun niður á tegundir fiskeldis í mánuðinum. Þar sést að útflutningsverðmæti eldislax var komið í rúma 40 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024. Það er um 19% aukning frá sama tímabili árið 2023. Laxinn skilaði jafnframt næstmestu útflutningsverðmæti á fyrstu ellefu mánuðum ársins af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi, en þar er þorskurinn vitaskuld í fyrsta sæti. Útflutningsverðmæti af laxi voru 30% umfram verðmæti af ýsu sem var í þriðja sæti í þessari upptalningu. Laxinn er þar með í yfirburðastöðu í öðru sæti og miðað við framleiðsluhorfur má ætla að bilið breikki enn frekar á næstu árum.
Á hinn bóginn var um 17% samdráttur í útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024 samanborið við sama tímabil árið á undan. Útflutningsverðmæti silungs nam um 4,2 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðunum í fyrra samanborið við rúma 5 milljarða árið á undan. Svipaða sögu er að segja um frjóvguð hrogn, sem er verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra var komið í tæpa 1,9 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024, sem er 29% samdráttur á milli ára. Á móti hafa útflutningstekjur af senegalflúru, sem er einn verðmætasti matfiskur í heimi, aldrei verið meiri á tilgreindu tímabili og í fyrra. Útflutningsverðmæti senegalflúru var komið í 1,4 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins, sem er 81% aukning á milli ára.
Það ætti að vera öllum ljóst að fiskeldi er nú þegar veigamikill liður í vöruútflutningi Íslendinga og mun án nokkurs vafa leggja enn meira af mörkum á komandi árum. Sú þróun er afar jákvæð, enda eykur fiskeldi fjölbreytni í útflutningi og styrkir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á atvinnulíf og samfélög víða um land.