Olíunotkun í sjávarútvegi aldrei minni

17. apríl, 2020

Olíunotkun í sjávarútvegi var rétt rúm 133 þúsund tonn á árinu 2019. Það er minnsta notkun í greininni frá upphafi mælinga, sem ná aftur til ársins 1982 og þá fyrir daga kvótakerfisins. Olíunotkun fiskiskipa nam 130 þúsund tonnum á árinu og dróst saman um rúm 4% frá fyrra ári. Samdrátturinn var öllu meiri í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja, eða 63%, en þar nam notkunin tæplega 3 þúsund tonnum. Í heild nam samdrátturinn í greininni því 7% á milli ára. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Orkustofnun birti nýlega um olíusölu á árinu 2019.

Kolefnissporið minnkar en umsvifin ekki
Vissulega er olíunotkun á hverjum tíma háð framleiðslu, það er veiðum og vinnslu. Var til að mynda einnig 7% samdráttur í útflutningsframleiðslu á árinu 2019 frá fyrra ári. Þann samdrátt má að stærstum hluta rekja til loðnubrests og kemur því ekki á óvart að samdrátturinn í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja var eins mikill og raun ber vitni. Engu að síður er leitnin klárlega niður á við hvað olíunotkun varðar, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Á undanförnum árum hefur sjávarútvegur notað helmingi minna af olíu til að veiða og vinna sama magn og hann gerði á síðustu árum fyrir aldamót. Það þýðir að sjávarútvegi hefur tekist að draga úr olíunotkun án þess að það komi niður á framleiðslu og gott betur. Það eru margir samverkandi þættir sem leggjast á eitt og skýra þessa þróun, svo sem bætt fiskveiðistjórnun, fjárfesting í tækjum og búnaði, fækkun og endurnýjun á skipum sem eru öflugri og hagkvæmari og breytt orkunotkun. Þetta er ákjósanleg þróun því vanalega eykst olíunotkun, og kolefnissporið stækkar, þegar umsvif atvinnugreina aukast. Það á ekki við um íslenskan sjávarútveg.

Nánari umfjöllun um sjávarútveg og umhverfismál má sjá á Radarnum, þar sem tölur um olíunotkun hafa verið uppfærðar.

 

Deila frétt á facebook