Olíunotkun í sjávarútvegi minni en fyrstu tölur bentu til

28. september, 2020

Olíunotkun í sjávarútvegi nam 129 þúsund tonnum á árinu 2019. Það er minnsta notkun frá upphafi mælinga, sem ná aftur til ársins 1982, fyrir daga kvótakerfisins. Þetta má ráða af endurskoðuðum tölum Orkustofnunar um olíunotkun eftir geirum sem birtar voru í sumar. Var notkunin jafnframt minni á árinu 2019 en fyrstu bráðabirgðatölur stofnunarinnar bentu til, sem einkum má rekja til minni olíunotkunar innlendra fiskiskipa. Samkvæmt endurskoðuðum tölum var olíunotkun innlendra fiskiskipa rúm 126 þúsund tonn á árinu 2019, sem er rúmlega 3% minni notkun á árinu en bráðabirgðatölurnar bentu til.  Olíunotkun innlendra fiskiskipa dróst því saman um rúm 7% á milli áranna 2018 og 2019. Samdrátturinn var öllu meiri í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja, eða 63%, en þar nam notkunin tæplega 3 þúsund tonnum. Þær tölur eru fengnar frá félagi íslenskra fiskimjölsframleiðenda og eru óbreyttar frá því fyrr á árinu. Í heild nam samdrátturinn í greininni því um 10% á milli ára.

Minni losun er veigamesti ábati fjárfestingar
Olíunotkun í sjávarútvegi er vissulega háð framleiðslu á hverjum tíma, það er veiðum og vinnslu. Samdrátturinn í olíunotkun var þó umfram þann samdrátt sem var í útflutningsframleiðslu á árinu 2019 frá fyrra ári, en hún dróst saman um rúm 7%. Samdráttinn má að stórum hluta rekja til loðnubrests, sem jafnframt kemur heim og saman við þann mikla samdrátt sem var í olíunotkun fiskimjölsverksmiðja.

Þegar litið er á tölur um útflutningsframleiðslu sjávarútvegs og olíunotkun greinarinnar blasir við afar jákvæð en sjaldséð þróun. Þar má sjá að olíunotkun hefur dregist nær stöðugt saman frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar á sama tíma og útflutningsframleiðsla sveiflast á nokkuð þröngu bili. Það þýðir að sjávarútvegur hefur notað helmingi minna af olíu við að veiða og vinna sama magn en hann gerði á síðustu árum fyrir aldamótin. Með öðrum orðum þýðir það að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur tekist að draga úr olíunotkun án þess að það komi niður á framleiðslu og gott betur. Það eru margir samverkandi þættir sem leggjast á eitt og skýra þessa þróun. Ber hér helst að nefna bætt fiskveiðistjórnun, fjárfesting fyrirtækja í tækjum og búnaði, fækkun og endurnýjun á skipum sem eru öflugri og hagkvæmari og breytt orkunotkun. Því hefur sú mikla fjárfesting sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ráðist skilað sér í umhverfisvænni framleiðslu og verður hagkvæmni fjárfestingar ekki öllu jákvæðari en það.

Nánari umfjöllun um sjávarútveg og umhverfismál má sjá á Radarinn.is en þar hafa tölur og umfjöllun um olíunotkun nýlega verið uppfærðar.

 

Deila frétt á facebook