Ótvíræður árangur í loftslagsmálum

10. júlí, 2023

Sjávarútvegur hefur náð markvissum árangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda undanfarin ár og er langstærsti hluti þess samdráttar vegna minni olíunotkunar í sjávarútvegi. Á undanförnum árum hefur olíunotkun verið um 40% minni en hún var að jafnaði á fyrsta áratug þessarar aldar og nær helmingi minni en hún var á tíunda áratug síðustu aldar. Þessar tölur endurspegla vel þann markverða árangur sem sjávarútvegur hefur náð í loftlagsmálum. Nánar um þetta má sjá á mælaborði Radarsins þar sem tölur um olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið uppfærðar.


Ábati fjárfestinga

Það getur reynst vandasamt að draga úr olíunotkun og um leið tryggja verðmætasköpun til framtíðar en almennt stækkar kolefnisspor atvinnugreina við aukin umsvif. Sjávarútvegi hefur tekist vel í þeim efnum og hefur dregið verulega úr olíunotkun og minnkað kolefnissporið, án þess að það hafi bitnað á framleiðslu og gott betur en svo. Sá árangur sést vel á myndinni hér að neðan.

Vitaskuld sveiflast olíunotkun í sjávarútvegi frá einu ári til annars, meðal annars vegna breytinga í ráðlögðum afla einstaka fisktegunda og framleiðslu. Á heildina litið er leitnin þó klárlega niður á við. Á síðasta ári jókst olíunotkun í sjávarútvegi um 16 þúsundum tonn en þá aukningu má hins vegar að stærstum hluta rekja til skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu á raforku til fiskimjölsverksmiðja. Sú skerðing kom á sama tíma og íslensk uppsjávarskip höfðu heimild til þess að veiða um 660 þúsund tonn af loðnu, sem er eitt mikilvægasta hráefni í vinnslu fiskimjölsverksmiðja á mjöli og lýsi. Er því óhætt að segja að sú skerðing raforkunnar hafi komið á afar óheppilegum tíma.

Þrátt fyrir ofangreinda aukningu í olíunotkun í fyrra, sem að stærstum hluta var vegna skerðingar á raforku, er árangur sjávarútvegs í loftlagsmálum ótvíræður. Það eru margir samverkandi þættir sem skýra þann árangur og er einn af þeim stærri einmitt raforkuvæðing fiskimjölsverksmiðja. Fjárfesting sjávarútvegsfyrirtækja í þeim efnum hefur gert það að verkum að hlutfall rafmagns í orkukaupum verksmiðjanna hefur farið sívaxandi og þar með hafa þær þurft að reiða sig í minna mæli á olíu, með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Í dag eru þær nær allar knúnar raforku. Aukin heldur hafa fyrirtækin ráðist í verulegar fjárfestingar í nýjum og stærri skipum, sem búa yfir nýrri tækni og eru sparneytnari en þau sem eldri eru. Eins hafa framfarir í veiðum og veiðafærum, betra skipulag veiða og fækkun skipa dregið úr olíunotkun.

Fiskveiðistjórnunarkerfið áhrifamikill þáttur

Það er á grundvelli fiskveiðistjórnunarkerfisins sem sjávarútvegur hefur náð þessum markverða árangri í loftlagsmálum, enda felur kerfið í sér hagræna hvata til fjárfestinga. Kerfið byggist á varanleika aflaheimilda sem stuðla að langtímahugsun hjá fyrirtækjum í greininni. Það er nauðsynlegt svo að hægt sé að auka fyrirsjáanleika í greininni en sjávarútvegur, ólíkt öðrum atvinnugreinum, er að mörgu háður duttlungum náttúrunnar þar sem sveiflur í stærð fiskistofna er einn stærsti óvissuþátturinn.

Enn er til mikils að vinna í að minnka kolefnisspor íslensks sjávarútvegs, líkt og útlistað er í loftlagsvegvísi sjávarútvegs sem kom út á dögunum og má lesa hér. En til þess þurfa fyrirtækin svigrúm til fjárfestinga. Hvers konar aukin gjöld á sjávarútveginn munu bitna á getu fyrirtækjanna til að fjárfesta og rýra þannig möguleika þeirra að ná háleitum markmiðum um samdrátt í losun. Það fellur því í hlut stjórnvalda, vilji þau ná settum markmiðum sínum í loftlagsmálum, að stilla gjaldtöku í hóf og standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið enda er það á grundvelli þess kerfis sem sjávarútvegur á Íslandi hefur náð svo markverðum árangri í samdrætti í losun gróðurhúslofttegunda.

 

Deila frétt á facebook