Sá stærsti

7. febrúar, 2022

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 24,6 milljörðum króna í janúar samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti í morgun. Það hefur ekki verið meira í janúarmánuði frá árinu 2002, sem er eins langt aftur og mánaðartölur Hagstofunnar ná. Miðað við janúar í fyrra er aukning rúmlega 44% í krónum talið. Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða 50%, þar sem gengi krónunnar var ríflega 4% sterkara í janúar en í sama mánuði í fyrra. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar á föstu gengi, en hér ber að halda til haga að tölurnar hafa ekki verið leiðréttar fyrir breytingum á verðlagi. Hvað sem því líður er ljóst að árið 2022 byrjar vel í íslenskum sjávarútvegi.


Dágóð aukning í öllum flokkum
Í ofangreindri aukningu munar mest um fryst flök. Útflutningsverðmæti þeirra námu rúmlega 6,8 milljörðum króna í janúar, sem er um 66% aukning frá janúar í fyrra á föstu gengi. Ekki er hægt að sjá hvaða tegundir eru þarna undir eða magn þeirra, því Hagstofan birtir aðeins vinnsluflokka og verðmæti í fyrstu bráðabirgðatölum hvers mánaðar. Af einstaka afurðaflokkum munar næstmest um lýsi en þar var aukningin hlutfallslega öllu meiri. Útflutningsverðmæti þess nam rúmlega 3,1 milljarði króna og jókst um 154% á milli ára á föstu gengi. Fiskimjöl nær þó hlutfallslega að toppa þá aukningu, en þar námu verðmætin rúmlega 1,1 milljarði króna og aukningin 343% á milli ára.

Útflutningsverðmæti ferskra afurða nam rúmlega 7,2 milljörðum króna í janúar og jókst um 18% á milli ára. Aukningin þar var nokkuð minni en í öðrum afurðaflokkum, en þar munar miklu um hverja prósentu því ferskar afurðir eru orðnar svo fyrirferðamiklar. Útflutningsverðmæti á frystum heilum fiski var um 1,7 milljarðar króna og jókst um 40% á milli ára. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða jókst um 26% á milli ára en verðmæti þeirra nam um 2,5 milljörðum króna. Að lokum nam útflutningsverðmæti rækju 655 milljónum króna og jókst um 50% á milli ára á föstu gengi.


En þrátt fyrir allt ...
Þrátt fyrir ofangreinda þróun í útflutningsverðmæti sjávarafurða, dregst vægi þeirra saman í verðmæti vöruútflutnings á milli ára. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rétt rúm 32% af verðmæti alls vöruútflutnings í janúar samanborið við tæp 35% í janúar í fyrra. Vægi sjávarafurða í vöruútflutningi í janúar hefur í raun ekki verið minna á þessari öld, sem er með ólíkindum miðað við ofangreinda þróun. Það má að stærstum hluta rekja til þess að útflutningsverðmæti áls og álfurða jókst um 69% á föstu gengi. Aukninguna má vafalaust rekja til umtalsverðrar verðhækkunar sem varð á heimsmarkaði á áli, en útflutningsverðmæti áls jókst í fyrra um 40% á milli ára á föstu gengi. Þar af mátti um 38% rekja til verðhækkana, en magnið jókst um rúmt 1%. Þar fyrir utan jókst útflutningsverðmæti annarra iðnaðarvara mun meira en sjávarafurða, eða um 71% á milli ára á föstu gengi. Þá er ótalin aukning í fiskeldi, sem nam  um 96% á milli ára. Þessar myndarlegu aukningar í öllum undirliðum vöruútflutnings, leiða því til þess að verðmæti hans í janúar hefur ekki verið meira en nú á liðnum áratug, séu skip og flugvélar undanskilin. Í heild var verðmæti vöruútflutnings 62% meira á föstu gengi í janúar en í janúar í fyrra. Telja má góðar líkur á að hér eigi verðhækkanir stóran þátt miðað við fréttir að undanförnu, frekar en að það sé mikil aukning á framleiðslu. En það mun skýrast í lok mánaðar þegar Hagstofan birtir seinni og ítarlegri tölur um útflutning.

 

Deila frétt á facebook