Sitt sýnist hverjum – en um sumt verður ekki deilt

9. desember, 2021

Umsvif í fiskeldi hafa stóraukist á undanförnum árum. Margir virðast þó draga í efa að fiskeldi skilji nokkuð eftir sig hér á landi eða hafi raunverulega efnahagslega þýðingu fyrir land og þjóð. Flestar efasemdaraddir má líklega rekja til þess að ákveðin eldisfyrirtæki eru í meirihlutaeigu erlendra aðila. Hér ber að hafa í huga að það eitt og sér er þó jákvætt, því erlend fjárfesting getur átt þátt í að dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri atvinnuuppbyggingu. Að íslensku fiskeldi hafa jafnframt fagaðilar komið, sem hafa ekki einungis sett fjármagn í uppbyggingu, heldur einnig miðlað af reynslu sinni og þekkingu til uppbyggingar í greininni. Þótt sitt sýnist hverjum um fiskeldi, er rangt að halda því fram að greinin skilji ekkert eftir sig hér á landi í efnahagslegu tilliti. Hagstærðir tala sínu máli!

Styrkir gjaldeyrisöflun
Efnahagsástandið á undanförnum misserum ætti að endurspegla vel hversu mikilvægt það er að útflutningur sé fjölbreyttur, ekki síst fyrir lítil opin hagkerfi eins og það íslenska. Því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því minni verða áhrifin á hagkerfið, og þar með á hagsæld þjóðarinnar, þegar í bakseglin slær hjá einstaka útflutningsgreinum. Ber því fyrst að nefna áhrif fiskeldis á útflutning, en Hagstofan birti í vikunni fyrstu tölur um vöruskipti í nóvember. Þar kemur fram að útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2,5 milljörðum króna í mánuðinum og er þar með komið í tæpa 33 milljarða króna á fyrstu 11 mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra voru fluttar út eldisafurðir fyrir um 25 milljarða króna og er því um að ræða 33% aukningu á milli ára á föstu gengi. Vart þarf að nefna að útflutningsverðmæti eldisafurða hefur aldrei áður verið meira, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Verðmæti þess er um 5% af heildarverðmæti alls vöruútflutnings á tímabilinu og hefur það hlutfall aldrei verið hærra á þessum hluta árs. En áhrif fiskeldis eru ekki einungis bundin við gjaldeyrisöflun eða útflutningstölur, þau eru vitaskuld mun meiri en svo. 


Hlutfallsleg fjölgun starfa hvergi meiri
Aukin umsvif í fiskeldi hér á landi sjást greinilega í tölum af vinnumarkaði. Af öllum atvinnugreinum er hlutfallsleg fjölgun launþega í ár hvergi meiri en í fiskeldi. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, en nýjustu tölur þess efnis ná til september í ár. Á fyrstu 9 mánuðum þessa árs hafa að jafnaði rúmlega 13% fleiri einstaklingar fengið greidd staðgreiðsluskyld laun frá fiskeldi en á sama tímabili í fyrra. Sjá má röð atvinnugreina á myndinni hér fyrir neðan, þar sem fiskeldi trónir á toppnum. Það kemur ekki á óvart að fækkun launafólks hefur mest orðið í greinum tengdum ferðaþjónustu, enda hefur COVID-19 faraldurinn komið hvað harðast niður á þeirri grein. Í heildina fengu 1% færri einstaklingar að jafnaði greidd staðgreiðsluskyld laun á íslenskum vinnumarkaði á fyrstu 9 mánuðum þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra.


Mesta hækkun launasummunnar í fiskeldi
Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, það er samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur allra launþega innan greinanna. Hún hefur hækkað mest í fiskeldi á fyrstu 9 mánuðum þessa árs, eða sem nemur rúmlega 19% að nafnvirði á milli ára. Á sama tímabili hefur launasumman í heild hækkað um tæp 8% á milli ára á íslenskum vinnumarkaði, en sú hækkun getur meðal annars stafað af fjölgun vinnustunda eða launahækkunum enda fækkaði launafólki um 1% á tímabilinu. Launasumman dregst svo saman á milli ára í helstu greinum ferðaþjónustunnar, eins og sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Áhrifin augljós á vinnumarkað
Fjölgun starfa eða hækkun launasummunnar í fiskeldi er vitaskuld ekki bundið við árið í ár, enda hefur greinin verið í stöðugum vexti undanfarin ár. Áhrif þess koma vel í ljós á myndinni hér fyrir neðan, en þess ber að geta að tölur um fiskeldi taka ekki inn alla vinnslu á eldisfiski, sem fellur þá undir fiskvinnslu. En þar má sjá að fjöldi einstaklinga sem fengið hefur greidd staðgreiðsluskyld laun í fiskeldi hefur að jafnaði verið um 590 á mánuði hverjum á fyrstu 9 mánuðum þessa árs samanborið við um 520 á sama tímabili í fyrra. Að sama skapi hefur staðgreiðsluskyld launasumma aukist frá ári til árs í fiskeldi, en á myndinni hefur henni verið deilt niður á fjölda einstaklinga sem fær launagreiðslu í fiskeldi. Til samanburðar má sjá þróunina í hagkerfinu alls, en hér ber að halda til haga að þar er ekki tekið tillit til stöðugilda eða vinnutíma. Engu að síður má sjá að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi á mann hafa verið nokkuð hærri að jafnaði en í hagkerfinu alls frá árinu 2014, en fyrir þann tíma var því öfugt farið.


Afleiddu áhrifin
Af ofangreindu er ljóst að aukin umsvif í fiskeldi eru að leiða til fjölgunar starfa og þar með til aukinna atvinnutekna í hagkerfinu, auk þess að styrkja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Áhrifin eru þó meiri en svo í efnahagslegu tilliti. Fiskeldi er grunnatvinnuvegur, sem þýðir að greinin hefur meiri efnahagslega þýðingu en umfang hennar, eitt og sér, gefur til kynna. Þannig eru aðrir atvinnuvegir háðir starfsemi fiskeldisfyrirtækja, en þau ekki eins háð starfsemi annarra atvinnuvega. Þessi afleiddu eða óbeinu áhrif greinarinnar hafa komið vel fram á ákveðnum landshlutum þar sem fiskeldi er hvað umsvifamest, eins og á Vestfjörðum og á Austurlandi. Þar hefur atvinnulíf orðið fjölbreyttara, fólki fjölgað og aukið líf færst í fasteignamarkaðinn svo fátt eitt sé nefnt. Þetta má rekja beint til aukinna umsvifa starfseminnar sjálfrar og óbeint til afleiddra áhrifa sem eldið hefur á aðrar atvinnugreinar.

Óumdeild efnahagsleg áhrif
Þó efasemdaraddir um áhrif fiskeldis í efnahagslegu samhengi heyrist enn eru flestir orðnir meðvitaðir um jákvæð áhrif fiskeldis á íslenskt efnahagslíf. Nærtækt er að nefna að á undanförnum misserum hefur varla verið gefin út efnahagsspá án þess að minnst sé á fiskeldi, hvort sem það er í samhengi útflutnings eða atvinnuvegafjárfestinga. Það kemur ekki síst til vegna áforma sem uppi eru um enn frekari uppbyggingu fiskeldis á komandi árum, bæði á landi og í sjó. Sú aukning sem verið hefur undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið drifin áfram af framleiðslu á laxi úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austurlandi. Framleiðsla á landi hefur verið margfalt minni en í sjókví, en horfur eru á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn, þá sér í lagi á suðvesturhorni landsins. En þegar öllu er á botninn hvolft ætti af þessu að vera ljóst að fiskeldi hefur verið kærkomin búbót fyrir íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum og hefur nú þegar afar mikla þýðingu í efnahagslegu tilliti fyrir einstaka landshluta.

 

Deila frétt á facebook