Sjávar- og eldisafurðir þriðjungur útflutningstekna

27. maí, 2021

Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru um 224 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi. Í krónum talið er um liðlega 15% samdrátt að ræða á milli ára. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, eða 21%, enda var gengi krónunnar um 7% lægra á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra.

Vart þarf að nefna að áhrif COVID-19 á ferðaþjónustu spilar stærstu rulluna í þessum samdrætti, líkt og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Vissulega hefur faraldurinn haft áhrif á aðrar útflutningsgreinar, eins og sjávarútveg og fiskeldi, en áhrifin þar eru þó mun bærilegri en á ferðaþjónustu. Samanlagt námu útflutningstekjur af sjávar- og eldisafurðum um 77 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, sem er ríflega 34% af útflutningstekjum þjóðarbúsins á fjórðungnum. Það er svo til á pari við útflutningstekjur af sjávar- og eldisafurðum samanlagt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofa Íslands birti í gærmorgun.


Ágætis horfur um útflutning á sjávarafurðum
Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam liðlega 66 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og dróst saman um tæp 4% á milli ára í erlendri mynt. Verð á sjávarafurðum gaf mikið eftir í fyrra þegar COVID-19 skall á.  Samdrátturinn í útflutningsverðmætum sjávarafurða á fyrsta ársfjórðungi er einmitt afleiðing þess og var verð á sjávarafurðum að jafnaði rúmlega 9% lægra á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra, mælt í erlendri mynt. Á móti vegur tæplega 7% aukning í útfluttu magni. Þar sem gengi krónunnar var um 7% veikara á fjórðungnum en á sama tíma í fyrra, jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um 4% í krónum talið. Samspil áhrifaþáttanna þriggja, það er afurðaverðs, magns og gengis krónunnar, á útflutningsverðmæti sjávarafurða í krónum talið, má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Í nýrri spá Seðlabankans kemur fram að horfur um útflutning á sjávarafurðum í ár hafi batnað vegna meiri og verðmætari loðnuafla. Því til viðbótar gerir bankinn ráð fyrir lítilsháttar aflaaukningu í þorski og ýsu, en í febrúarspá sinni reiknaði hann með samdrætti þar á árinu. Bankinn er nú einnig bjartsýnni, en hann var í febrúar, á markaðsaðstæður á alþjóðamörkuðum með sjávarafurðir. Telur hann að vísbendingar séu um að jafnvægi sé að nást á mörkuðum fyrir mikilvægar botnfiskafurðir nú á öðrum ársfjórðungi og að verð þeirra fari hækkandi þegar líður á árið. Þar að auki hefur verðþróun á loðnuafurðum verið einkar góð og segir bankinn að vísbendingar séu um að verð annarra uppsjávarafurða hækki þegar líða tekur á árið. Spáir bankinn að útflutningsverð sjávarafurða í erlendri mynt haldist óbreytt að jafnaði í ár, á milli ára, en í febrúar hafði hann reiknað með 2% lækkun.

Góður gangur í fiskeldi
Útflutningstekjur af eldisafurðum námu um 11 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, sem er 23% aukning á milli ára á föstu gengi. Hana má rekja til ríflega helmings aukningar á útfluttu magni en á móti var afurðaverð um fimmtungi lægra á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra, mælt í erlendri mynt. Myndin hér fyrir neðan er eins byggð upp og myndin á undan og sýnir áhrif afurðaverðs, magns og gengis krónunnar á útflutningsverðmæti eldisafurða í krónum talið. Þar má sjá að útflutningsverðmæti eldisafurða var hátt í þriðjungi meira í krónum talið á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra. Seðlabankinn kemur inn á horfur í  fiskeldi í nýrri spá sinni enda er atvinnugreinin farin að skipta nokkru máli fyrir útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna aukinnar framleiðslu síðustu misserin. Bankinn reiknar með áframhaldandi vexti í útflutningi á eldisfiski og leggur þar meðal annars til grundvallar áætlanir fiskeldisfyrirtækja um aukna fjárfestingu.

 

 

 

Deila frétt á facebook