Sjávarafurðir á siglingu

7. janúar, 2022

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 24,5 milljörðum króna í desember samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í mánuðinum sem birtar voru í morgun. Það er um 6% aukning í krónum talið frá desember 2020. Aukningin er nokkuð meiri í erlendri mynt, eða rúm 8%, enda var gengi krónunnar að jafnaði ríflega 2% sterkara í desember en í sama mánuði á árinu 2020. Á þann kvarða hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða í desembermánuði ekki verið meira undanfarinn áratug. Hér ber að halda til haga að tölurnar hafa ekki verið leiðréttar fyrir verðlagi, heldur einungis breytingum á gengi krónunnar.

Fyrstu bráðabirgðatölur Hagstofunnar eru ekki birtar fyrir tegundir eða lönd, einungis vinnsluflokka. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá má rekja aukninguna í desember að stærstum hluta til frystra flaka. Þar er hátt í þriðjungs aukning á föstu gengi. Eins er veruleg aukning í útflutningsverðmæti í flokknum „aðrar sjávarafurðir“, eða um 67% á föstu gengi. Í þessum flokki eru loðnuhrogn og ekki er ólíklegt að enn séu að týnast inn tölur frá síðustu loðnuvertíð. Á hinn bóginn er verulegur samdráttur í útflutningsverðmæti rækju á milli ára, eða sem nemur rúmum 53% á föstu gengi. Minni breyting er í öðrum afurðaflokkum.


Tæpir 300 milljarðar
Miðað við ofangreindar tölur var útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2021 um 293 milljarðar króna. Það er rúmlega 8% aukning í krónum talið frá árinu 2020. Að teknu tilliti til gengisbreytinga er aukningin rúmlega 11%. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi ekki verið meira á einu ári og í fyrra á þessari öld. Ef útflutningsverðmæti sjávarafurða í erlendri mynt er leiðrétt fyrir verðbólgu erlendis, sem er þá verðmæti að raunvirði, þá er árið 2021 í öðru sæti á eftir árinu 2018. Á árinu 2018 hafði reyndar sjómannaverkfall í ársbyrjun 2017 áhrif. Því óveiddar heimildir í árslok 2017 voru talsvert meiri en í hefðbundnu árferði. Það eru að vitaskuld ótal þættir sem koma við sögu sem hafa áhrif á útflutningsverðmæti sjávarafurða frá einu ári til annars, eins og úthlutað aflamark, staðan á erlendum mörkuðum og vinnsla afurða. Hér var gengi krónunnar ekki upptalið þar sem átt er við verðmætin í erlendri mynt, en það gefur auga leið að það eitt og sér hefur áhrif á verðmætin í krónum talið. En hvað sem því líður er óhætt að segja að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum hafi í heildina tekist vel til við veiðar, vinnslu og sölu á afurðum á árinu 2021. Það er ekki sjálfgefið!


 

Loðnan litla spilar stóra rullu
Það er engum blöðum um það að fletta að ofangreinda aukningu í útflutningsverðmæti sjávarafurða á milli ára má að langstærstum hluta rekja til loðnunnar. Og það er alveg óhætt að segja að sjávarútvegsfyrirtækjum tókst vel að hámarka verðmæti úr takmörkuðum afla. Af einstaka afurðaflokkum munaði mest um þá miklu aukningu sem varð á útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“, en þar koma loðnuhrogn við sögu. Nam útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ 31,4 milljörðum króna á árinu 2021, sem er um 91% aukning frá árinu 2020 á föstu gengi. Eins kom loðnan við sögu í þeirri aukningu sem var á útflutningsverðmæti á heilfrystum fiski. Nam útflutningsverðmæti þess afurðaflokks um 36,6 milljörðum króna og jókst um rúm 21% á milli ára.

Ferskfiskvinnsla aldrei meiri
Útflutningsverðmæti ferskra afurða nam 86,6 milljörðum króna á árinu 2021 og hefur aldrei verið meiri. Jókst útflutningsverðmæti ferskra afurða um 10% á milli ára á föstu gengi. Ferskar afurðir voru um 30% af útflutningsverðmæti sjávarafurða alls á árinu 2021, sem er sama og hlutdeild þeirra var á árinu 2020. Það eitt og sér er nokkuð merkilegt þar sem einungis lítilsháttar sala á loðnubirgðum átti sér stað á árinu 2020 en loðnan bætir engu við í ferskfiskútflutningi. Hefði því fremur átt að reikna með að hlutfall ferskra afurða í útflutningsverðmæti sjávarafurða alls myndi lækka vegna loðnunnar, en svo var ekki.

Af öðrum flokkum má nefna að útflutningsverðmæti á frystum flökum jókst um rúm 5% á milli ára og var um 71,8 milljarðar króna. Útflutningsverðmæti lýsis nam 31,4 milljörðum króna á árinu 2021 og stóð nánast í stað á milli ára. Lýsi er flokkað með fiskimjöli á myndinni, en útflutningsverðmæti mjöls var 16,6 milljarðar króna á árinu 2021 og dróst saman um tæp 7% á milli ára. Útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða nam 29,2 milljörðum króna á árinu og dróst saman um tæp 5% á milli ára. Að lokum má nefna að um 12% samdráttur varð í verðmæti útfluttrar rækju á árinu. Nam útflutningsverðmæti rækju rétt rúmlega 7,7 milljörðum króna á árinu, sem er það minnsta sem það hefur verið á þessari öld.

 

Deila frétt á facebook