Sjávarafurðir: Ágætis gangur í útflutningi í upphafi árs

3. apríl, 2020

Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 21,6 milljarðar króna í febrúar, sem er í samræmi við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Þar með er útflutningsverðmæti sjávarafurða  komið í rúma 44,5 milljarða króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er um 8% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra en um 6% aukning á föstu gengi. Í tonnum talið er aukningin þó mun meiri, eða tæp 25%.

Því ber að halda til haga að útflutningstölur fyrir tiltekinn mánuð endurspegla ekki það sem flutt var út í mánuðinum. Hluti af afurðunum kann að hafa verið fluttur út fyrir alllöngu síðan en vegna verklags Tollstjóra, sem gögn Hagstofunnar byggjast á, eru umrædd gögn að birtast nú. Slíkur tímamismunur er algengari vegna gagna um uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir. Til að mynda virðist enn vera að mjatlast úr loðnubirgðum í ofangreindum tölum, sem ætla má að séu löngu farnar úr landi. Jafnframt hefur útflutningur á makríl verið fyrirferðamikill í tölum ársins, en hann er að mestu veiddur síðla sumars og fram á haustið.   

Sveigjanleiki kemur sér vel
Þessi mikli munur á ofangreindri breytingu, miðað við verðmæti og magn, endurspeglar hversu fjölbreyttar og misverðmætar sjávarafurðir eru, bæði hvað varðar tegundir og vinnslu. Segja má að afurðirnar séu allt frá því að líkjast hefðbundnum hrávörum (fiskmjöl og lýsi) til sérhæfðrar matvöru í hæsta gæðaflokki. Ólíkir afurðaflokkar fisktegunda endurspegla jafnframt sveigjanleika, það er að svigrúm sé til tilfærslu á milli afurðaflokka, til að mynda í kjölfar samdráttar í eftirspurn. Þetta er afar mikilvægur eiginleiki, sér lagi þegar horft er til þess að sjávarafurðir vega um 45% af heildarverðmæti vöruútflutnings.

Mikilvægi kerfisins
Eins og aðrar atvinnugreinar hefur sjávarútvegur ekki farið varhluta af þeim aðstæðum sem nú eru uppi í kjölfar COVID-19. Hafa markaðir fyrir sjávarafurðir umturnast á örskömmum tíma og mikil óvissa er með framhaldið þar sem ástandið breytist dag frá degi. Þetta á sér í lagi við markaði fyrir ferskar afurðir, en þær hafa verið um fjórðungur af útfluttum sjávarafurðum miðað við verðmæti á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Ferskar afurðir eru verðmætustu afurðirnar, en við setningu útgöngubanns í ríkjum ESB, sem er stærsta markaðssvæðið fyrir ferskar afurðir, hvarf eftirspurnin.  Áhrifanna gætir þó á fleiri afurðaflokka enda hafa dreifileiðir laskast og flutningur almennt orðið dýrari á sama tíma og þrýstingur er á verðlækkun flestra afurðaflokka.

Við þessar aðstæður kemur styrkur þess skipulags, sem atvinnugreinin býr við, berlega í ljós. Er þar átt við aflamarkskerfið sem tryggir fyrirtækjum rétt til veiða á tilteknu aflamagni innan fiskveiðiársins, ásamt samþættingu veiða og vinnslu og órofinni virðiskeðju allt til erlendra kaupenda sjávarafurða. Þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir óskipulegt og kostnaðarsamt kapphlaup um aflann, þar eð fyrirtækjum er gert kleyft að fresta veiðum án þess að veiðiréttur þeirra tapist. Á sama hátt treystir þetta skipulag langtíma viðskiptasambönd við kaupendur erlendis. Þannig gerir skipulag greinarinnar möguleg yfirveguð úrræði og viðbrögð við þeim fordæmalausu erfiðleikum sem nú er við að etja.

Fjölbreytt flóra viðskiptalanda
Evrópa er stærsta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir. Þó er hlutdeild þess ekki eins afgerandi og hún var í byrjun síðasta áratugar þar sem aðrir markaðir hafa verið að sækja í sig veðrið á undanförnum árum, helst Bandaríkin og Kína. Jafnframt hafa átt sér stað verulegar breytingar á hlutdeild einstakra landa innan Evrópu. Til að mynda er hlutdeild Bretlands ekki nærri eins stór og hún var í byrjun síðasta áratugar en á móti hefur Frakklandsmarkaður orðið æ mikilvægari, einkum fyrir ferskar afurðir.

Fjöldi viðskiptalanda skiptir miklu máli líkt og fjölbreyttar afurðir. Þegar markaður hrynur í einu landi, vegna efnahagslegra eða pólitískra áfalla, er hægara um vik að bregðast við og leita annað þegar viðskiptasambönd eru víðar, þótt ekki sé alltaf um fullkomna staðkvæmd að ræða. Þrátt fyrir að ástandið í heimsbúskapnum nú sé fordæmalaust, þar sem öll lönd eru undir, getur þessi eiginleiki flýtt fyrir aðlögun sjávarútvegs að nýjum veruleika.

 

Deila frétt á facebook