Sjávarafurðir: Gangurinn framar vonum

2. október, 2020

Gangurinn í sjávarútvegi hefur almennt verið betri en á horfðist í fyrstu þegar COVID-19 faraldurinn skall á. Sá árangur hefur komið mörgum á óvart. Má hér nefna að í ágúst spáði Seðlabankinn talsvert minni samdrætti í útflutningi á sjávarafurðum í ár en hann hafði gert í maí. Breytinguna mátti fyrst og fremst rekja til þess að útflutningur á sjávarafurðum á öðrum ársfjórðungi var framar vonum bankans. Hagstofa Íslands, sem birti nýja þjóðhagsspá í gærmorgun, tekur í sama streng og Seðlabankinn og segir orðrétt:

 

Útflutningur sjávarafurða var meiri á öðrum ársfjórðungi en gert var ráð fyrir í síðustu þjóðhagsspá þrátt fyrir tæplega 12% samdrátt. Sala ferskra afurða gekk betur og veiði dróst minna saman en áætlað var. Uppsjávarveiðar hafa auk þess gengið vel í haust og horfur fyrir árið í heild hafa batnað lítillega frá þjóðhagsspá í júní.

 

Í spá Hagstofunnar kemur jafnframt fram að annar vöruútflutningur en sjávarafurðir hafi reynst minni en gert var ráð fyrir í júní. Hins vegar hafa horfur fyrir vöruútflutning í heild sinni lítið breyst frá síðustu spá þar sem meiri útflutningur á sjávarafurðum vegur upp á móti. Þess má geta að þessi 12% samdráttur sem vitnað er til í spá Hagstofunnar á við um útflutning á sjávarafurðum á fyrstu 7 mánuðum ársins. Er hér einnig átt við útflutningsframleiðslu, eða magn, en ekki útflutningsverðmæti þar sem gengi og afurðaverð koma einnig við sögu.

 

Dregur úr samdrætti með nýjum tölum
Á fyrstu 8 mánuðum ársins nam útflutningsverðmæti sjávarafurða rúmlega 166 milljörðum króna samanborið við tæplega 169 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rétt rúmlega 1% samdráttur í í krónum talið á milli ára. Gengi krónunnar var að jafnaði um 9% veikara á fyrstu 8 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Mælist samdrátturinn því ívið meiri í erlendri mynt, eða tæp 10%. Hann má einkum rekja til 10% samdráttar í útfluttu magni sjávarafurða, sem er þó nokkuð minni en var á fyrstu 7 mánuðum ársins (-12%). Afurðaverð vegur örlítið upp á móti, en það hefur að jafnaði verið tæplega 1% hærra í erlendri mynt í ár en það var á sama tímabili í fyrra. Þá örlitlu hækkun má að öllu leyti rekja til verðhækkana í upphafi árs enda varð verulegur viðsnúningur á mörkuðum í kjölfar COVID-19 með tilheyrandi lækkunum á afurðaverði, eins og við greindum nýlega frá á Radarnum.

Loðnan minnir á sig
Af einstaka tegundum má rekja ríflega helming samdráttar í útflutningsverðmætum sjávarafurða í erlendri mynt til uppsjávarafurða. Stærsti einstaka ástæðan er loðnubrestur í upphafi árs, enda vóg sala á loðnubirgðum nokkuð drjúgt í útflutningstölum síðasta árs sem verður eðlilega ekki endurtekin í ár. Þegar útlit var fyrir að loðnubrestur yrði í ár, og þá annað árið í röð, voru áhyggjurnar ekki miklar og var því gjarnan slegið upp að styrkur þjóðarbúsins myndi vega upp áhrifin af loðnubrest. Var þar vísað til fjölbreyttari útflutnings og að vöxtur hagkerfisins gerði það að verkum að loðnubrestur hefði ekki sömu þýðingu í þjóðhagslegu samhengi og áður. Vissulega var það rétt á þeim tíma, en nú er öldin önnur, aðeins nokkrum mánuðum síðar. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti sjávarafurða eftir tegundum á fyrstu 8 mánuðum hvers árs á föstu gengi.
 

 

Deila frétt á facebook