Sjávarafurðir: Góður gangur í maí

10. júní, 2024

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæpum 35 milljörðum króna í maí samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum um vöruviðskipti sem Hagstofan birti fyrir helgi. Það er um 3,5% aukning í krónum talið miðað við maí í fyrra. Lítil breyting var á gengi krónunnar á tímabilinu og er aukningin mæld í erlendri mynt því svipuð, eða tæp 4%.

Í umræddri aukningu munar mest um fiskimjöl. Útflutningsverðmæti þess nam um 5,3 milljörðum króna í maí sem er um fimmtungs aukning frá maí í fyrra á föstu gengi. Eins var rúmlega 18% aukning í útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða á milli ára, en verðmæti þeirra nam 4 milljörðum nú í maí. Útflutningsverðmæti frystra flaka jókst svo um tæp 10% á milli ára, eða úr 7,1 milljarði króna í 7,8 milljarða á föstu gengi. Þá var einnig aukning í útflutningsverðmæti „annarra sjávarafurða“ (8%) og lýsis (34%). Samdráttur er í útflutningsverðmæti þriggja flokka, þ.e. rækju (-42%), heilfrystum fiski (-24%) og ferskum afurðum (-2%). Þessa sundurliðun á útflutningverðmæti sjávarafurða í maí má sjá á myndinni hér fyrir neðan,  en ekki liggja fyrir upplýsingar niður á tegundir í þessum fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar.


Lítilsháttar samdráttur það sem af er ári

Á fyrstu fimm mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í tæpa 146 milljarða króna. Það er um 1,5% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra að teknu tilliti til gengisbreytinga.  Þennan samdrátt má fyrst og fremst rekja til tveggja afurðaflokka, þ.e. heilfrysts fisks (-31%) og svo fiskimjöls (-24%). Í báðum þessum flokkum voru loðnuafurðir, þ.e. loðnumjöl og heilfryst loðna, fyrirferðarmiklar í fyrra. Það er því engum vafa undirorpið að loðnubrestur setur svip sinn á útflutningstekjur í ár. Eins er töluverður samdráttur í útflutningsverðmæti rækju á milli ára (-19%), en vægi hennar er ekki mikið í heildarsamhenginu.

Útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka en nefndir eru hér á undan eykst á milli ára. Þar munar mest um 10% aukningu í útflutningsverðmæti ferskra afurða á milli ára, á föstu gengi. Eins er töluverð aukning í útflutningsverðmæti lýsis, eða sem nemur um 18% á sama kvarða. Af öðrum afurðaflokkum má nefna aukningu í útflutningsverðmæti saltaðra og þurrkaðra afurða (8%), frystra flaka (1%) og „annarra sjávarafurða“ (4%), en þar undir teljast meðal annars loðnuhrogn. Reikna má með að einhver útflutningur hafi verið á loðnuhrognum nú í maí líkt og undanfarna mánuði frá síðustu vertíð. Enda var metframleiðsla á hrognum í loðnuvertíðinni í fyrra, sem að stórum hluta eru enn eftir í birgðum hér á landi.

 

Deila frétt á facebook